Sindri segir í yfirlýsingu sinni að hann sé ekki að stíga fram í þeim tilgangi að sverta æru Ingólfs. Allt sem hann hafi sagt um Ingólf hafi verið í kjölfar ummæla á samfélagsmiðlum, sem hafi flest verið opinber.
„Ég stíg fram til að benda á hvernig fullorðnir menn, líkt og Ingólfur, nýta sér brotalöm í okkar réttarkerfi til að sænga hjá börnum, án afleiðinga fyrir þá en oft með skelfilegum afleiðingum fyrir börnin,“ segir Sindri í yfirlýsingunni.
Sindri kveðst þá ætla að mæta Ingólfi af hörku í dómsalnum og sýna að hann hafi hvergi gengið fram með ærumeiðandi ummælum. Þau orð sem hann hafi látið falla hafi verið byggð á opinberum ummælum að mestu leyti. Þá segist hann hvergi hafa sakað Ingólf um refsiverðan verknað.