Hinn 32 ára gamli Bilic er einkar fjölhæfur þó hann sé rúmir tveir metrar á hæð og spili aðallega sem miðherji. Hann hefur farið mikinn síðan hann kom fyrst til Íslands árið 2019 en þá samdi hann við Tindastól.
„Þetta er mikill liðsstyrkur fyrir okkur en Bilic kemur með dýrmæta reynslu inn í öflugan hóp okkar. Körfuboltinn á Álftanesi hefur virkilega vaxið á síðustu árum og innkoma Bilic hjálpar við að styrkja okkar starf sem er það mikilvægasta,“ sagði Huginn Freyr Þorsteinsson, formaður körfuknattleiksdeildar Álftaness, er Bilic var kynntur til sögunnar á samfélagsmiðlum.
Álftanes er í 2. sæti 1.deildar karla í körfubolta með 22 stig, tveimur stigum minna en topplið Hauka og tveimur stigum meira en Höttur sem er í 3. sæti.