Samkvæmt tilkynningu frá Veðurstofu Íslands var skjálftinn 3,9 að stærð en enginn gosórói er sjáanlegur. Jarðskjálftinn reið yfir klukkan 14:29 skammt norðan við Trölladyngju á Reykjanesskaga og hafa höfuðborgarbúar því fundið betur fyrir honum en öðrum skjálftum.
Sömuleiðis hafa Veðurstofu borist tilkynningar um að skjálftinn hafi fundist allt austur á Hellu á Rangárvöllum.
Undanfarna viku hefur verið mikil jarðskjálftavirkni á Reykjanesskaga og reið síðasti stóri skjálfti yfir klukkan 06:25 í morgun. Sá var 3,4 að stærð og fannst vel víða á höfuðborgarsvæðinu. Þó nokkrir skjálftar af þessari stærðargráðu hafa sést á Reykjanesskaga á síðustu dögum.
Vísindaráð almannavarna fundaði í gær vegna jarðskjálftavirkninnar og er gengið út frá því að ef til eldgoss kæmi þá gjósi við eldstöðvarnar í Fagradalsfjalli.
Fréttin hefur verið uppfærð.