Fasi hófst á Reykjanesi í vor þar sem losa þarf um spennu sem safnast hefur upp á um 700 árum.
Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur segir í samtali við fréttastofu að kvikan muni koma upp eins og hún gerði í Geldingadal ef efri skorpan gefur sig og gat opnast upp á yfirborðið. Þá sé þó ekki mikill þrýstingur sem muni spýta kvikunni upp heldur muni hún leita rólega upp eins og í hinu gosinu.
Við þurfum að fara að venjast þessum jarðskjálftum og yfirvofandi eldgosum, segir eldfjallafræðingurinn.
„Það þýðir ekki að nálgast þetta öðruvísi en það að þetta er það sem við þekkjum á Reykjanesinu. Við erum komin í spennulosunartíma. Við erum komin í eldgosatíma. Nú verða menn bara að fara að venjast þessu því að næstu 100-150 ár, verður þetta í gangi.
Við verðum reglulega með þessa stóru og miklu skjálfta og við verðum reglulega með eldgos. Við erum komin með eldinn heim í garðinn og þá þurfum við bara að vera klár,“ segir Ármann.
Að vera klár þýðir hér að huga þurfi að því hvernig eigi að taka á móti hraunstraumum sem kunna að koma ofan af hásléttunni á Reykjanesi.
Gosopið sem opnaðist í Geldingadal hefur verið óvirkt um skeið eða alltént mjög lítið virkt, þótt enn hafi formlegum goslokum ekki verið lýst yfir. Það varði í sex mánuði að því gefnu að það fari ekki aftur af stað.