Samtök hernaðarandstæðinga hafa staðið fyrir friðargöngunni frá árinu 1980 en gátu ekki haldið hana í fyrra vegna samkomutakmarkana.
Fjöldi fólks sækir hana árlega og það kom eflaust mörgum á óvart að sjá hana auglýsta strax á morgun, 18. desember.
„Það kom okkur mjög á óvart að það væri friðarganga á morgun. Hún er sem sagt alltaf á Þorláksmessu hjá okkur og við erum nýbúin að ákveða að við getum ekki haldið hana með hefðbundnu sniði vegna sóttvarnaaðgerða,“ segir Guttormur Þorsteinsson, formaður Samtaka hernaðarandstæðinga.
Stöldrum við... fyrir okkur öll
Auglýsingin fyrir gönguna er nefnilega alls ekki í anda hernaðarandstæðinga. Hér virðast vera á ferð mótmæli gegn bólusetningum barna.

Fámennur hópur hefur staðið fyrir reglulegum mótmælum gegn aðgerðum stjórnvalda í faraldrinum en hann fór nýlega að leggja aðaláherslu á bólusetningar barna.
Sjá einnig: Mótmæltu bólusetningum á Austurvelli.
Og hernaðarandstæðingar eru allt annað en sáttir með að mótmælin fari fram undir formerkjum áratuga gamallar jólahefðar þeirra.
„Mér finnst þetta frekar leiðinlegt og við viljum helst ekki vera tengd þeirra málstað heldur tala almennt fyrir friði. Og því er frekar leiðinlegt að þau séu að nota þetta nafn sem hefur verið svona jólasiður hjá mörgum í marga áratugi. Og að það sé hægt að rugla þessu saman,“ segir Guttormur.

Harðneita tengingunni
Mótmælin á morgun munu fara fram bæði í Reykjavík og á Akureyri, rétt eins og venjan er með friðargöngu hernaðarandstæðinga.
Í skriflegu svari frá forsvarsmönnum mótmælanna harðtaka þeir þó fyrir að friðarganga hernaðarandstæðinga hafi verið í huga þeirra þegar nafn var fundið á gönguna.
Spurð hvort þarna væri á ferð stæling á nafni hinnar einu sönnu friðargöngu svaraði Martha Ernstsdóttir, einn forsvarsmannanna því neitandi: „Nei alls ekki, þetta er friðarganga til að leggja áherslu á mannréttindi, frelsi og lýðræði,“ sagði hún.
Eru ekki á móti bólusetningum
Guttormur vill ítreka fyrir fólki að viðburðurinn sé ekki tengdur hernaðarandstæðingum á neinn hátt.
Og hernaðarandstæðingar eru ekki á móti bólusetningum barna eða hvað?
„Nei, við höfum allavega ekki tekið þá afstöðu, nei.“