Innlent

Þrír sak­felldir fyrir að ræna á­fengi og appel­sínum úr sumar­bú­stað

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Mennirnir rændu appelsínum og áfengi úr sumarbústað á Akureyri.
Mennirnir rændu appelsínum og áfengi úr sumarbústað á Akureyri. Vísir/Tryggvi

Þrír karlmenn hafa verið dæmdir í þrjátíu daga skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa brotist inn í sumarbústað á Akureyri og stolið appelsínum og áfengi. 

Mennirnir þrír voru ákærðir fyrir að hafa aðfaranótt mánudagsins 20. janúar 2020 staðið saman að því að fara inn í sumarbústað á Akureyri og stela þaðan einni rauðvínsflösku, einni hvítvínsflösku, sex bjórum, ausu, brýni, fótum undan Bang & Olufsen hátalara og nokkrum appelsínum. Þá hafi þeir gert tilraun til að stela hátalaranum, ryksugu og ullarteppi en þeir flúðu af vettvangi þegar forsvarsmaður eigenda sumarbústaðarins kom að þeim. 

Tveir mannanna sóttu ekki þing, þrátt fyrir að hafa verið kallaðir fyrir dóminn. Segir í dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra, sem féll á þriðjudag, að þar sem brotin varði ekki þyngri viðurlögum verði framlögð gögn að teljast nægjanleg til sakfellingar. Þriðji maðurinn mætti fyrir dóm og játaði sök. 

Fyrri brot tveggja mannanna voru tekin til hliðsjónar við ákvörðun refsingarinnar. Annar þeirra hafði verið dæmdur fyrir umferðalagabrot í mars 2020 og dæmdur til að greiða 140 þúsund króna sekt auk þess sem hann var sviptur ökuréttindum.

Hinn maðurinn hafði í september 2020 verið ákærður fyrir þjófnað og gerði hann sátt við lögreglustjórann á Norðurlandi eystra um að greiða 100 þúsund krónur í sekt. Þá hlaut hann dóm í ágúst á þessu ári fyrir þjófnað og var refsingin 20 þúsund króna sekt. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×