Innlent

Á skilorði grunaður um að hafa nauðgað fjórtán ára stúlku

Eiður Þór Árnason skrifar
Rannsókn málsins miðar vel að sögn lögreglu.
Rannsókn málsins miðar vel að sögn lögreglu. Vísir/Vilhelm

Karlmaður á fertugsaldri, sem er grunaður um að hafa frelsissvipt og nauðgað fjórtán ára stúlku um síðustu helgi, er á skilorði eftir að hafa verði dæmdur fyrir tilraun til kynferðislegrar áreitni gegn barni árið 2020.

RÚV greinir frá þessu og segir að maðurinn hafi viðhaft kynferðislegt orðbragð við notanda á samfélagsmiðli sem þóttist vera þrettán ára stúlka.

Hlaut hann í kjölfarið tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi. Maðurinn er nú sömuleiðis grunaður um að hafa notað samfélagsmiðla til að mæla sér mót við fjórtán ára stúlkuna áður en hann braut á henni um seinustu helgi.

Karlmaðurinn var sömu helgi úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna málsins á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Hann er nú laus úr haldi.

Ævar Pálmi Pálmason, yfirmaður kynferðisbrotadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, sagði í samtali við fréttastofu í gær að rannsókn málsins miði vel. Ákveðið hafi verið að sleppa manninum úr haldi þar sem ekki hafi þótt rannsóknarhagsmunir í húfi þannig að tilefni væri til að halda honum lengur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×