Sport

Magnus Carlsen heimsmeistari í fimmta sinn

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Einbeittur Carslen við skákborðið, hvar honum líður best.
Einbeittur Carslen við skákborðið, hvar honum líður best. Getty Images/Dean Mouhtaropoulos

Norðmaðurinn Magnus Carlsen lagði í dag Ian Nepomniachtchi frá Rússlandi í elleftu skák þeirra um meistaratitilinn í skák og tryggði sér þar með sinn fimmta heimsmeistaratitil.

Lagt var upp með að tefla fjórtán skákir og þannig þurfti 7,5 vinninga til að tryggja sér sigur í einvíginu. Fyrstu fimm skákunum lauk með jafntefli en Carlsen hafði loks sigur í sjöttu skák og tók forystu.

Síðan þá hefur sá norski haft yfirhöndina og vann tvær af fjórum næstu skákum en hinum tveimur lauk með jafntefli. Hann hafði því 6,5 vinninga fyrir skákina í dag.

Nepomniachtchi lék illa af sér þegar vel var liðið á skákina í dag. Var Carlsen þar með kominn með yfirhöndina og tryggði sér sigur í skákinni. Einvíginu lauk því með sigri Carlsen með 7,5 vinningum gegn 3,5 vinningum Rússans sem allir komu úr jafnteflum.

Carlsen varð 31 árs þann 30. nóvember en hann vann sinn fyrsta heimsmeistaratitil árið 2013 þegar hann lagði Viswanathan Anand. Síðan þá hafa fjórir mætt honum í úrslitaeinvíginu.

Hann lagði Anand aftur í Sochi í Rússlandi 2014. Næsti áskorandi var Sergey Karjakin í New York árið 2016 og svo Bandaríkjamaðurinn Fabiano Carauana árið 2018.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×