Erlent

Kínverjar segja ríki munu gjalda fyrir að sniðganga Ólympíuleikana

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Kínverjar virðast æfir yfir ákvörðun Bandaríkjamanna, Breta og Ástrala að senda ekki embættismenn á leikana.
Kínverjar virðast æfir yfir ákvörðun Bandaríkjamanna, Breta og Ástrala að senda ekki embættismenn á leikana. epa/Roman Pilipey

Ráðamenn í Kína segja að Ástralir, Bretar og Bandaríkjamenn muni gjalda fyrir þau mistök sín að senda ekki opinberar sendinefndir á Ólympíuleikana í Pekíng í febrúar.

Bandaríkjamenn voru fyrstir til að ríða á vaðið og greindi frá því á mánudag að engir embættismenn yrðu sendir á leikana vegna grófra mannréttindabrota Kínverja gegn minnihluta Úígúra.

„Bandaríkin, Bretland og Ástralía hafa beitt Ólympíuleikunum í pólitískum bellibrögðum,“ sagði Wang Wenbin, talsmaður kínverska utanríkisráðuneytisins. „Þau munu gjalda fyrir mistök sín,“ sagði hann á blaðamannafundi.

Evrópusambandið er nú sagt íhuga að sniðganga leikana en Jean-Michel Blanquer, menningar- og íþróttamálaráðherra Frakklands, sagði í dag að þarlend stjórnvöld hygðust ekki gera það.

„Við þurfum að nálgast varlega mörkin á milli íþrótta og stjórnmála,“ sagði hann. „Íþróttir eru aðskilinn heimur sem þarfnast verndar frá pólitískum afskiptum. Ef ekki geta hlutirnir farið úr böndunum og gert út um allar keppnir.“

Scott Morrison, forsætisráðherra Ástralíu, sagði í vikunni að ástralskir embættismenn myndu ekki verða viðstaddir Ólympíuleikana vegna þeirra erfiðleika sem hefðu komið upp við að opna aftur samtal milli ríkjanna um mannréttindamál og ákvörðun Kína að leggja bann við innflutningi vara frá Ástralíu.

Kínverjar hafa ítrekað neitað ásökunum um hroðaverk gegn Úígúrum og segja þær uppspuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×