Innherji

Segja tugmilljarðagat í fjárhagsáætlun borgarinnar

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Borgarstjóri segir skeið uppbyggingar framundan í Reykjavík. Fjárhagsáætlun borgarinnar var samþykkt í gær.
Borgarstjóri segir skeið uppbyggingar framundan í Reykjavík. Fjárhagsáætlun borgarinnar var samþykkt í gær. Vísir/Vilhelm

Borgarstjóri segir að engin efnahagsleg óstjórn ríki í Reykjavík en oddviti Sjálfstæðisflokksins, stærsta stjórnarandstöðuflokksins, furðar sig á því af hverju kostnaður við rekstur Reykjavíkurborgar sé 20 prósentum hærri á íbúa en í nágrannasveitarfélögunum. Hann segir tugmilljarðagat í fjárhagsáætlun borgarinnar.

Samkvæmt útreikningum borgarinnar hefur þjóðhagsspá jákvæð áhrif á rekstrarniðurstöðu A hluta borgarinnar, þann hluta sem rekinn er af skatttekjum, um rúman hálfan milljarð. Það leiðir af sér að rekstrarniðurstaða næsta árs verður engu að síður neikvæð um tæpa þrjá milljarða. Rekstrarniðurstaða samstæðu borgarinnar verði hins vegar jákvæð um 9 milljarða. 

Í því samhengi er mikilvægt að nefna að hinn hlut­inn í rekstri borg­­ar­inn­­ar, svokallaður B-hlut­i, á að skila miklum hagn­aði á sama tímabili. Hann nær yfir afkomu þeirra fyr­ir­tækja sem borgin á að fullu eða að hluta. 

Fyr­ir­tækin sem telj­­­ast til B-hlut­ans eru Orku­veita Reykja­vík­­­­­ur, Faxa­fló­a­hafnir sf., Félags­­­­­bú­­­staðir hf., Íþrótta- og sýn­inga­höllin hf., Mal­bik­un­­­ar­­­stöðin Höfði hf., Slökkvi­lið höf­uð­­­borg­­­ar­­­­svæð­is­ins bs., Sorpa bs. og Strætó bs, auk Afl­vaka hf og Þjóð­­ar­­leik­vangs ehf.

Meirihluti borgarstjórnar samþykkti eigin breytingartillögur á fjárhagsáætlun í gærkvöldi en meðal þeirra voru aukin framlög vegna strætósamgangna í Gufunesi, frístund fatlaðra framhaldsskólanema og stofnun tveggja nýrra íslenskuvera vegna kennslu barna með annað móðurmál en íslensku. 

Tekist var á í sal borgarstjórnar Reykjavíkur fram á nótt þegar síðari umræða um fjárhagsáætlun næsta árs og fjármálaáætlun borgarinnar frá 2022-2026 fór fram í gær. Margir borgarfulltrúar kvöddu sér til hljóðs og sitt sýndist hverjum. Allar breytingatillögur minnihlutans við fjárhagsáætlun voru felldar.

Sjálfstæðisflokkurinn segir vanda borgarinnar á útgjaldahliðinni ekki á tekjuhliðinni

Í áætlun meirihluta borgarstjórnar til næstu ára eru helstu markmið meirihlutans að ná fram hagræðingu á launakostnað í gegnum aðhaldsaðgerðir og stafræna umbreytingu. Þá verði frekari hagræðingu náð fram með miðlægum innkaupum og aðhaldsaðgerðum. Þá ætlar borgin sér að leita frekari framlaga frá ríkinu vegna lögbundinna verkefna, einkum vegna þjónustu við fatlaða, svo nokkuð sé nefnt.

Hildur Björnsdóttir og Eyþór Arnalds voru ekki bjartsýn um rekstur borgarinnar á borgarstjórnarfundi sem lauk stuttu eftir miðnætti.

Oddviti Sjálfstæðisflokksins, Eyþór Arnalds, segir ýmislegt í rekstri borgarinnar minna á skuldsettan vogunarsjóð. Afkoman byggi á afleiðum í áli og gjaldmiðlum, endurmati á félagslegu húsnæði og fjárfestinga í fyrirtækjum. Þá segir hann margt vanta inn í áætlun meirihlutans til næstu ára. Raunar sé um að ræða gat upp á tugi milljarða. Þar tínir hann til skuld Orkuveitunnar við Glitni sem fyrir liggur dómur um upp á fjóra milljarða. 

Þá sé ekki gert ráð fyrir fjármunum í framkvæmd fyrirhugaðar brennslustöðvar fyrir sorp, engin sjáanleg hagræðing sé af stafrænni innleiðingu og ekki sé gert ráð fyrir framlögum í rekstur borgarlínu, svo dæmi séu nefnd.

„Skuldir samstæðu borgarinnar eru komnar yfir 400 milljarða. Og er áfram gert ráð fyrir að auka þær verulega. Gert er ráð fyrir því að skuldir samstæðunnar verði komnar yfir 450 milljarða árið 2025,” segir Eyþór.

Ekki forgangsraðað í þágu grunnþjónustu á borð við leikskóla

Undir þetta tekur Hildur Björnsdóttir, sem skipar annað sæti flokksins. „Skuldaaukningin raungerist þrátt fyrir 7,5 prósent tekjuaukningu árið 2021. Útgjöld vaxa samhliða en launakostnaður hækkar um 15 prósent á tveimur árum. Einstök tækifæri stærðarhagkvæmninnar eru vannýtt. Hér er Reykjavík ekki í forystu," segir Hildur og bætir við.

„Fjölgun starfsmanna hjá Reykjavíkurborg á síðustu fjórum árum er um 19 prósent. Mannaráðningar ganga illa í grunnþjónustukerfum á borð við leikskóla en sífellt virðist svigrúm til að fjölga í miðlægri stjórnsýslu. Á sama fjögurra ára tímabili hefur borgarbúum aðeins fjölgað um 8 prósent. Báknið stækkar í fullkomnu ósamræmi við íbúafjölgun.”

Sjálfstæðisflokkurinn lagði til þrjár tillögur sem að þeirra mati myndu létta á skuldum borgarinnar og einfalda reksturinn. Að gera leigjendum Félagsbústaða hf. mögulegt að eignast heimili sitt með sérstöku eiginfjárláni frá borginni til þriggja ára fyrir útborgun. 

Þá lagði flokkurinn til sölu á fyrirtækinu Ljósleiðaranum ehf. (áður Gagnaveitu Reykjavíkur) og að söluandvirðið yrði nýtt til að lækka skuldir og fjármagnskostnað auk þess sem Malbikunarstöðin Höfði yrði seld í sama tilgangi. Allar voru felldar.

Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalista, segir fátækt pólítíska ákvörðun.

Sósíalistar vildu skólastarf gjaldfrjálst með öllu

Fulltrúi Sósíalista í borgarstjórn, Sanna Magdalena Mörtudóttir segir að fátækt sé pólítísk ákvörðun. „Brauðmolar til fátæks fólks eru það eina sem einkennir afstöðu stjórnvalda til þeirra sem hér um ræðir, það er aldrei fullt efnahagslegt réttlæti." 

Hún lagði til að allt skólastarf á vegum borgarinnar yrði gjaldfrjálst með öllu, þar með talin frístundaheimilin og skólamáltíðir.

„Gjaldtaka á ekki að fara fram innan veggja skólanna eða frístundaheimila borgarinnar. Börn hafa engar tekjur og ættu ekki að hafa áhyggjur af greiðslu fyrir þjónustu sem borgin býður upp á. 

Mikilvægt er að öll börn sitji við sama borð óháð efnahag og að skólastarf og frístundaheimili borgarinnar verði með öllu gjaldfrjálst," segir Sanna. 

Auk þessa lagði Sanna til að fjárhagsaðstoð yrði hækkuð og að allir á fjárhagsaðstoð fengju desemberuppbót. Þá lagði hún fjárfestingu gegn húsnæðiskreppunni, greiðslu NPA samninga og tillögu um niðurfellingu leigu hjá leigjendum Félagsbústaða á krepputímum. Tillögurnar voru allar felldar.

Flokkur fólksins vill eyða biðlistum með tilfærslu fjármuna í borgarkerfinu

Kolbrúnu Baldursdóttur, hjá Flokki fólksins, var líkt og Sönnu Magdalenu tíðrætt um fátækt í umræðu um fjárhagsáætlun borgarinnar. „Mörgum börnum, eldri borgurum og öryrkjum líður illa í ríku samfélagi okkar. Enginn ætti að þurfa að hafa áhyggjur af grunnþörfum," segir Kolbrún, en ein fjögurra tillagna flokksins sneri að gjaldfrjálsum skólamáltíðum. 

Kolbrún Baldursdóttir er oddviti og eini borgarfulltrúi Flokks fólksins í borgarstjórn. Hún vill eyða biðlistum barna.

Kolbrún lagði einnig til að ráðist yrði í fjölgun sálfræðinga og fagaðila til borgarinnar og sagði langa biðlista rótgrótið mein í Reykjavík. Um 1600 börn bíði eftir fagfólki. Fjármagnið fyrir ráðningum fagfólksins vill Kolbrún sækja með lækkun fjárheimilda til þjónustu- og nýsköpunarsviðs borgarinnar.

„Það hefur ekki farið fram hjá neinum að fulltrúa Flokks fólksins hefur þótt þjónustu- og nýsköpunarsvið Reykjavíkurborgar nota það gríðarmikla fjármagn sem sviðið hefur fengið til stafrænna verkefna illa og af lausung." 

Tillögur Kolbrúnar voru allar felldar.

Miðflokkur vildi úttekt á æðstu stjórn borgarinnar

Vigdís Hauksdóttir, oddviti og eini borgarfulltrúi Miðflokksins, segir alvarlega fjárhagsstöðu borgarinnar ekki heimsfaraldrinum að kenna. Hún lagði til að ráðist yrði í úttekt á starfsemi æðstu stjórnar Reykjavíkur.

Vigdís Hauksdóttir vill skilgreina lögbundna grunnþjónustu borgarinnar og forgangsraða fjármunum þangað.

„Þar sem óháður eða utanaðkomandi aðili yrði fenginn til að gera úttekt á starfseminni. Farið verði yfir allan kostnað, framúrkeyrslu verkefna, verkaskiptingu og skilvirkni." Auk þess lagði Miðflokkur til í að farið yrði í að skilgreina lögbundið hlutverk borgarinnar og fjármagni forgangsraðað í grunnþjónustu.

„Farið verði tafarlaust í kerfisbundinn niðurskurð á skrifstofu borgarstjóra og í annarri stjórnsýslu borgarinnar. Tekið verði upp ráðningastopp í stjórnsýslu Reykjavíkur en lögbundinni þjónustu og grunnstoðum verði hlíft."

Þá vildi Vigdís að farið yrði í bestun í öllum innkaupum borgarinnar og að að minnsta kosti 10 prósent hagræðingu náð.

Síðast en ekki síst vildi Vigdís fella niður fasteignagjöld á Hörpu og leikhúsin í borginni vegna þess forsendubrests sem menningarstofnanir hafi þurft að þola á tímum heimsfaraldursins auk þess sem hún vildi sjá hækkun á upphæð frístundakortsins. Allar tillögurnar voru felldar, líkt og raunin varð með allar breytingartillögur minnihlutans.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×