Innherji

Apótekum sagt að ráða fleiri lyfjafræðinga á sama tíma og ríkið sogar til sín starfskrafta

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda. 
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.  Samsett mynd

Breytt stjórnsýsluframkvæmd hjá Lyfjastofnun þyngir róður smærri apóteka í samkeppni þeirra við stóru lyfsölukeðjurnar. Á sama tíma og ríkið keppir við apótek um starfskrafta er smærri apótekum gert að ráða fleiri lyfjafræðinga en áður var gerð krafa um. Þetta segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda

„Breytingin felur í sér að ráða þarf tugi lyfjafræðinga til starfa í apótekum á höfuðborgarsvæðinu en ljóst er að slíkur fjöldi lyfjafræðinga er ekki til á landinu og því ekki öllum apótekum fært að uppfylla mönnunarkröfu laganna,“ segir Ólafur. Félag atvinnurekenda gætir hagsmuna allmargra sjálfstæðra apóteka eða einyrkjaapóteka, sem eru ekki hluti af stóru lyfsölukeðjunum

Forsaga málsins er sú að samkvæmt nýlegum lyfjalögum skulu að jafnaði ekki vera færri en tveir lyfjafræðingar að störfum við afgreiðslu á lyfjum í apóteki.

Í ákvæði laganna kemur þó fram að Lyfjastofnun sé heimilt að leyfa að í lyfjabúð starfi einungis einn lyfjafræðingur, enda sé umfang starfsemi lítið og þjálfað starfsfólk sé lyfjafræðingnum til aðstoðar. Þá er Lyfjastofnun jafnframt heimilt að veita tímabundið leyfi fyrir því að í lyfjabúð starfi aðeins einn lyfjafræðingur enda sé hætta á því að rekstur lyfjabúðar leggist niður á svæðinu.

Ákvæðið er nær samhljóða eldra ákvæði í lyfjalögum frá árinu 1994 en þó hefur stjórnsýsluframkvæmdin, að sögn Ólafs, verið sú í áraraðir að einungis hefur verið þörf á einum lyfjafræðingi í hverju apóteki.

„Eðli málsins samkvæmt getur verið enn snúnara fyrir þessi fyrirtæki að verða við kröfum Lyfjastofnunar en fyrir stóru lyfsölukeðjurnar.“

Lyfjastofnun tilkynnti um breytt fyrirkomulag varðandi fjölda lyfjafræðinga í apóteki með dreifibréfi í fyrra þar sem fram kom að frá 1. janúar 2021 þyrftu lyfsöluleyfishafar að sjá til þess að eigi færri en tveir lyfjafræðingar væru að störfum í apóteki að jafnaði. Er því um „nýja og mjög íþyngjandi kröfu að ræða“ að sögn Ólafs.

„Ekkert tillit virðist tekið til þess að mikill skortur er á lyfjafræðingum, og því síður að það er ríkið, sem bæði setur hinar íþyngjandi reglur og keppir hart við einkafyrirtæki um menntað starfsfólk. Við þekkjum dæmi þess að apótek hafi auglýst eftir lyfjafræðingi og fengið eina umsókn eða enga,“ segir Ólafur.

„Eðli málsins samkvæmt getur verið enn snúnara fyrir þessi fyrirtæki að verða við kröfum Lyfjastofnunar en fyrir stóru lyfsölukeðjurnar. Við höfum áhyggjur af samkeppnislegum áhrifum þess ef apótek, sem ekki ná að uppfylla mönnunarkröfurnar, missa einfaldlega lyfsöluleyfið. Það væri ekki góð niðurstaða fyrir neytendur, því að sjálfstæðu apótekin koma mun betur úr nýjustu verðkönnun ASÍ í apótekum en stóru keðjurnar.“

Ekki er skilgreint í lyfjalögum hvenær umfang starfsemi telst lítið í skilningi laganna en Lyfjastofnun hefur sett sér viðmiðunarreglur sem fela í sér aukinn fyrirsjáanleika um það hvernig leyst verði úr málum. Meðal annars er litið til fjölda afgreiddra lyfjaávísana. Sá þáttur vegur þyngst í heildarmati á umfangi starfsemi lyfjabúðar en aðrir metnir þættir auki umsvif.

Afgreiðsla á fleiri en 50 þúsund ávísunum á hverju ári fellur þannig undir flokkunina „Mjög mikil umsvif“ en afgreiðsla á færri en 10 þúsund ávísunum flokkast sem „Lítil umsvif.“ Ólafur segir að ekkert liggi fyrir um það hvernig stofnunin dró þessa línu.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×