Innlent

Vilja að heimilt verði að rukka þá sem nota nagladekk

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Nagladekk eru umdeild. Mikilvæg öryggistæki segja sumir, malbiksétandi svifryksvaldar segja aðrir.
Nagladekk eru umdeild. Mikilvæg öryggistæki segja sumir, malbiksétandi svifryksvaldar segja aðrir. Vísir/Vilhelm.

Þingmenn Samfylkingarinnar hafa lagt frumvarp á Alþingi um breytingar á umferðarlögum þess efnis að sveitarstjórnum verði heimilt að rukka fyrir notkun á nagladekkjum.

Frumvarpið var lagt fram í gær en þar er lagt til að sveitarstjórn verði gert heimilt að ákveða allt að 40 þúsund krónu gjald vegna notkunar nagladegkkja á vélknúnum ökutækju á nánar tilteknum svæðum, fyrir ákveðið tímabil eða ákveðin skipti, að höfðu samráði við Vegagerðina.

Í greinargerð með frumvarpinu segir að tilgangurinn sé annars vegar að draga úr notkun nagladekkja og vinna þannig gegn lífshættulegri svifryksmengun og hins vegar að standa straum af kostnaði sveitarfélaga vegna slits á vegum.

Samkvæmt frumvarpinu yrði ráðherra falið að setja reglugerð þar sem kveða skal á um nánari kröfur, viðmið og fyrirkomulag gjaldtöku vegna notkunar nagladekkja.

Er tekið fram í greinargerð að þar geti ráðherra til dæmis veitt undanþágu þegar notkun nagladekkja telst öryggisatriði vegna nauðsynlegra ferða umráðamanns bifreiðar um langan veg vegna búsetu eða starfa fjarri heimabyggð.

Málið hefur áður komið til umræðu en fyrir fjórum árum síðan samþykkti meirihluti umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkurborgar að skora á ráðherra að taka upp sérstaka gjaldtöku á þá eigendur ökutækja sem nota nagladekk undir farartæki sín.


Tengdar fréttir

Margar leiðir til að draga úr svifryki

Umræða um svifryk og uppruna þess, hreinsun gatna, umferðarstýringu og fleiri áhrifavalda hefur verið fyrirferðarmikil síðustu vikur. Það er af hinu góða, málið snertir okkur öll.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×