Umræðan

Mögu­leg á­byrgð dóttur­fé­lags á sam­keppnis­laga­brotum móður­fé­lags

Peter Dalmay skrifar

Í réttarframkvæmd hefur almennt verið gengið út frá því að náin tengsl á milli tveggja eða fleiri lögaðila geti leitt til þess að litið verður á þá sem eitt og sama fyrirtækið í skilningi samkeppnislaga enda sé hugtakið fyrirtæki af efnahagslegum toga en ekki lagalegu. Slík tengsl geta meðal annars verið á milli móður- og dótturfélaga sem hefur þá í för með sér að þau verða talin mynda eina efnahagslega einingu. Hefur í slíkum tilvikum verið talið unnt að leggja stjórnvaldssekt á móðurfélag vegna samkeppnislagabrota dótturfélags þess þegar hið síðarnefnda hefur ekki raunverulegt frelsi til að ákveða aðgerðir sínar á markaði. Þetta er svo þrátt fyrir að móðurfélagið hafi ekki komið beint að brotum dótturfélagsins. Aftur á móti var lengi vel óljóst hvort að dótturfélag gæti með sambærilegum hætti borið ábyrgð á samkeppnislagabrotum móðurfélags síns.

Í dómi Evrópudómstólsins 6. október sl. í máli Sumal (C-882/19) laut meginálitaefnið að því hvort að aðili sem verður fyrir tjóni vegna ólögmæts samráðsbrots móðurfélags, í þessu tilviki bílaframleiðandans Daimler, geti krafist bóta úr hendi dótturfélags þess, í þessu tilviki Mercedes Benz Trucks, þrátt fyrir að viðkomandi dótturfélag hafi ekki átt nokkurn þátt í samkeppnislagabrotum móðurfélagsins.

Í stuttu máli komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að bótaábyrgð dótturfélags í slíku tilfelli geti komið til greina. Líta bæri svo á að þegar það myndaði eina efnahagslega einingu með móðurfélagi sínu fælist í tilvist þeirrar einingar óskipt bótaábyrgð á þeim tíma sem viðkomandi samkeppnislagabrot var framið. Hins vegar væri ekki sjálfgefið að öll dótturfélög gætu sjálfkrafa talist bera bótaábyrgð í slíkum tilvikum enda gæti eitt og sama móðurfélagið talist vera hluti af mörgum ólíkum efnahagslegum einingum með mismunandi dótturfélögum sínum. Önnur niðurstaða myndi enda leiða til þess að tiltekin dótturfélög gætu talist bótaskyld þrátt fyrir að hafa með engu móti komið að viðkomandi samkeppnislagabroti móðurfélags síns.

Þetta þýðir að sá sem telur sig hafa orðið fyrir tjóni vegna samkeppnislagabrots þarf ekki að færa sönnur fyrir því að tiltekið félag beri ábyrgð á brotum annars félags heldur að félögin myndi eina efnahagslega einingu í framangreindum skilningi. 

Skiptir í því sambandi höfuðmáli að umræddur aðili sýni fram á að efnahagsleg, skipulagsleg og lagaleg tengsl séu á milli viðkomandi félaga. Framangreint nægir þó ekki þar sem honum ber jafnframt að sanna tengsl á milli efnahagslegra umsvifa dótturfélagsins og samkeppnishamlandi háttsemi móðurfélagsins sem talin var andstæð samkeppnisreglum. Ýmsum spurningum er þó ósvarað.

Fyrir það fyrsta er ekkert í forsendum dómsins sem gefur til kynna að sameiginleg ábyrgð félaga í framangreindum skilningi geti einungis stofnast í lóðréttu sambandi (milli móður- og dótturfélaga). Þannig virðist ekkert því til fyrirstöðu að ábyrgð vegna samkeppnislagabrota (hvort tveggja í formi bótaábyrgðar og stjórnvaldssektar) geti komið til greina í láréttu sambandi (milli systurfélaga), svo lengi sem sýnt er fram á efnahagsleg, skipulagsleg og lagaleg tengsl á milli félaganna, auk tengsla á milli efnahagslegra umsvifa eins systurfélags og samkeppnishamlandi aðgerða annars.

Þá er ekki alls kostar ljóst hvort að sömu sönnunarkröfur beri að leggja til grundvallar í tengslum við álagningu stjórnvaldssekta á fyrirtæki vegna brota gegn samkeppnislögum, þá þannig að samkeppnisyfirvöld þurfi að sýna fram á að nægileg tengsl hafi verið á milli efnahagslegra umsvifa tiltekins félags annars vegar og samkeppnishamlandi háttsemi tengds félags hins vegar, þegar tekin er ákvörðun um álagningu stjórnvaldssekta. Verður að telja að svo sé í ljósi þess að dómstóllinn hefur skýrt hugtakið fyrirtæki með sambærilegum hætti í báðum tilvikum. 

Líkt og áður greinir hefur í framkvæmd verið gengið út frá því að móðurfélag geti borið ábyrgð þrátt fyrir að hafa að engu leyti komið að viðkomandi samkeppnislagabrotum. Sú framkvæmd virðist ekki samræmast framangreindri sönnunarkröfu.

Loks liggur ekkert fyrir um hversu ríkar kröfur ber að gera til sönnunar á tengslum milli efnahagslegra umsvifa viðkomandi dótturfélags og samkeppnislagabrotum móðurfélagsins. Frekari leiðsögn er því nauðsynleg hvað þetta varðar.

Þess ber að geta að um bótarétt vegna samkeppnislagabrota hér á landi gilda í grunninn almennar reglur íslensks skaðabótaréttar en samkvæmt gildandi rétti verður bótaábyrgð vegna slíkra brota ekki yfirfærð á þriðja aðila. Í ljósi þess að íslensk samkeppnislög grundvallast í meginatriðum á samkeppnisákvæðum EES/ESB-réttar verður aftur á móti að telja að dómurinn muni hafa áhrif á þróun réttarins hér á landi hvað varðar álagningu stjórnvaldssekta á fyrirtæki vegna brota gegn samkeppnislögum.

Höfundur er lögmaður á Mörkinni lögmannsstofu. 




Umræðan

Sjá meira


×