Innlent

Tvö hundruð Hagskælingar nema á Hótel Sögu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Leiðin er stutt frá Hagaskóla yfir á Hótel Sögu.
Leiðin er stutt frá Hagaskóla yfir á Hótel Sögu. Vísir/Vilhelm

Reykjavíkurborg hefur samið við eigendur Hótel Sögu um að leigja af þeim um 1100 fermetra á 2. hæð hótelsins auk aðgangs að sameign. Þar munu um tvö hundruð nemendur í 8. bekk Hagaskóla nema á meðan framkvæmdir fara fram í norðausturálmu skólans hvar myglu hefur orðið vart.

Eva Bergþóra Guðbergsdóttir, teymisstjóri samskiptasviðs Reykjavíkurborgar, segir að stjórnendur og aðrir starfsmenn hafi verið að undirbúa húsnæðið yfir helgina. Þar hefst nám hjá 8. bekkingum í dag.

Skólastjórnendum Hagaskóla bárust í október ábendingar um að tilefni væri til að kanna loftgæði í norðausturálmu skólans og var þá kallað eftir aðstoð sérfræðinga til að rannsaka húsnæðið.

Tekin voru sýni úr gólfi og múr og loftræstikerfi hreinsað og tekið út. Frumniðurstöður frá verkfræðistofunni Eflu bárust miðvikudaginn 17. nóvember og kom þar fram að einhver leki hefði átt sér stað í múrvegg hvar fannst mygla.

„Unnið er samkvæmt nýjum verkferlum sem fara í gang um leið og grunur beinist að rakaskemmdum eða myglu og voru niðurstöðurnar strax kynntar fyrir stjórnendum og starfsfólki. Ákveðið var að engin kennsla myndi fara fram í þessum hluta húsnæðisins þar til endurbætur hafa farið fram,“ sagði í tilkynningu frá Reykjavíkurborg í síðustu viku.

Nemendur í 8. bekk fóru í vettvangsferðir á söfn á föstudaginn en mæta nú í skólann á Hótel Sögu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×