Innlent

Þing­menn sendir í hrað­próf

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Nýjir þingmenn mættu til vinnu á Alþingi á kynningarfund í síðasta mánuði.
Nýjir þingmenn mættu til vinnu á Alþingi á kynningarfund í síðasta mánuði. Vísir/Vilhelm

Þeim tilmælum hefur verið beint til allra sem verða viðstaddir þegar nýtt þing kemur saman í fyrsta sinn á þriðjudaginn að fara í hraðpróf við kórónuveirunni. Um er að ræða ráðstöfun sem ætlað er að koma í veg fyrir að hópsmit komi upp á Alþingi.

Fjallað er um málið í Morgunblaðinu í dag og haft eftir Rögnu Árnadóttur, skrifstofustjóra Alþingis, að fyrirkomulagið sé í samræmi við ráðleggingar sóttvarnalæknis og almannavarna.

Markmiðið sé einfaldlega að halda þinginu starfhæfu og koma í veg fyrir að hópar þingmanna smitist eða fari í sóttkví.

Niðurstöður um Norðvesturkjördæmi kynntar

Niðurstöður undirbúningskjörbréfanefndar, sem hefur haft til skoðunar framkvæmd Alþingiskosninganna í Norðvesturkjördæmi, mun kynna niðurstöður sínar á fyrsta þingfundinum á þriðjudag.

Fréttastofa greindi frá því fyrir fimmtudag að nefndin ynni að gerð tveggja tillagna til Alþingis um hvernig skuli afgreiða kjörbréf þingmanna í kjördæminu.

Önnur þeirra færi rök fyrir því að þegar útgefin kjörbréf verði samþykkt, og að byggt verði á endurtalningu sem ráðist var í að frumkvæði yfirkjörstjórnar í kjördæminu. Hin tillagan byggir á því að útgefin kjörbréf verði ekki samþykkt, og þar með ráðist í uppkosningu í kjördæminu. Það verði síðan Alþingis að greiða atkvæði um hvor leiðin verði farin.

Síðari tillagan hefði að öllum líkindum í för með sér nokkuð rask á þingsætum, þar sem niðurstaða uppkosningar gæti hæglega breytt röðun jöfnunarþingmanna milli kjördæma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×