Innlent

206 greindust innan­lands

Atli Ísleifsson skrifar
Aldrei hafa svo margir greinst innanlands á einum sólarhring frá upphafi faraldursins.
Aldrei hafa svo margir greinst innanlands á einum sólarhring frá upphafi faraldursins. Vísir/Vilhelm

206 greindust með kórónuveiruna innanlands í gær. Aldrei hafa svo margir greinst með kórónuveiruna hérlendis á einum sólarhring frá upphafi faraldursins. Fyrra met var tvö hundruð smitaðir á miðvikudaginn í síðustu viku, 10. nóvember.

Þetta kemur fram á síðunni covid.is. 1.773 eru nú í einangrun vegna Covid-19, en voru 1.691 í gær. 2.636 eru nú í sóttkví, en voru 2.647 í gær. 224 eru nú í skimunarsóttkví.

95 af þeim 206 sem greindust innanlands í gær voru í sóttkví við greiningu, eða 46 prósent. 111 voru utan sóttkvíar, eða 54 prósent.

25 eru nú inniliggjandi á sjúkrahúsum á landinu vegna Covid-19, sami fjöldi og í gær. Þá eru fjórir á gjörgæslu vegna Covid-19 líkt og í gær.

Níu smit kom upp á landamærunum í gær – átta virk smit í fyrri landamæraskimun og þá er niðurstöðu mótefnamælingar beðið í tilviki eins.

Nýgengi á smiti innanlands, þ.e. fjöldi smitaðra á hverja 100 þúsund íbúa undanfarnar tvær vikur, er nú 552,8, en var 519,8 í gær. Nýgengi á smiti á landamærum er nú 27,3 en var 25,4 í gær.

Alls hafa 15.968 manns greinst með kórónuveiruna hér á landi frá því faraldurinn hófst í lok febrúar á síðasta ári. Þá hafa 34 andlát verið rakin til Covid-19 hér á landi frá upphafi faraldursins.

Alls voru tekin 2.124 einkennasýni hjá sýkla- og veirufræðideild Landspítalans og Íslenskri erfðagreiningu í gær. Þá voru 1.240 sýni tekin á landamærunum eða í seinni landamæraskimun og 749 í svokallaðri sóttkvíar- og handahófsskimun. Þá voru tekin 309 sýni í skimun hjá Íslenskri erfðagreiningu.

Uppfært 10:36: Í upphaflegri útgáfu fréttarinnar sagði að 215 hafi greinst innanlands í gær. Hið rétta er að samanlagður fjöldi innanlandssmita og landamærasmita var 215. 206 greindust innanlands og níu á landamærum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×