Samningar voru kláraðir við fjárfestingafélagið Ardian France seinni part síðasta mánaðar.
Þjóðaröryggisráð hefur átt nokkra fundi um söluna en Míla sér um rekstur og á stærstan hluta ljósleiðarakerfis Íslands.
Þingkona Samfylkingarinnar segir ljóst hve mikilvæg starfsemi fyrirtækisins sé fyrir almannahag og óttast að netöryggi Íslendinga verði háð geðþótta erlends fjárfestingafélags.
„Það væri fullkomlega óeðlilegt og ég leyfi mér að segja glapræði að ætla að ganga frá þessari sölu án þess að Alþingi Íslendinga fái að fjalla um skilyrðin,“ segir Oddný G. Harðardóttir, sem á sæti í þjóðaröryggisráði.
Þeim skilyrðum verði hugsanlega að fylgja lagasetningar og þingið þurfi því góðan tíma.
Gangi ekki að ríkisstjórnin yppi bara öxlum
Ráðherra hefur heimild til að stöðva söluna allt að átta vikum frá því að samningar voru gerðir. Sá frestur rennur út 17. desember.
En störf undirbúningskjörbréfanefndar hafa gengið mun hægar en margir höfðu vonast eftir.
Nefndin lauk gagnaöflun sinni síðasta föstudag og hóf þá í fyrsta skipti að ræða málið efnislega af alvöru. Samkvæmt heimildum fréttastofu voru nokkuð skiptar skoðanir meðal nefndarmanna um lausnir á málinu en haldið verður áfram að reyna að finna sameiginlega leið á lokuðum fundi nefndarinnar í dag.
Formenn ríkisstjórnarflokkanna hafa sagt að þeir muni ekki kynna nýjan stjórnarsáttmála fyrr en nefndin hefur lokið sínum störfum.
„Mér finnst það ekki ganga að ríkisstjórn Íslands yppi bara öxlum og segi: „Við ráðum ekki við það að það séu einhver vandræði þarna í Norðvesturkjördæmi.“ Og láti söluna ganga þegjandi og hljóðlaust í gegn,“ segir Oddný.
Tvær vikur versti kostur í stöðunni
En þing verður að koma saman innan við 10 vikum frá kosningum en sá frestur rennur út 4. desember.
Þá hefði það tvær vikur til að fjalla um söluna á Mílu. Væri það nóg?
„Ég held að það sé afskaplega knappur tími og það er einmitt það sem ég óttast. Að það verði sett einhver skilyrði á borð fyrir framan okkur Alþingismenn og við okkur verði sagt: „Þið verðið að samþykkja þetta því annars fer salan athugasemdalaust í gegn“,“ segir Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.