Sport

Kínversk tennisstjarna horfin eftir að hafa sakað háttsettan embættismann um kynferðisofbeldi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Shuai Peng hefur ekki sést síðan hún ásakaði fyrrverandi varaforsætisráðherra Kína um kynferðisofbeldi.
Shuai Peng hefur ekki sést síðan hún ásakaði fyrrverandi varaforsætisráðherra Kína um kynferðisofbeldi. getty/Clive Brunskill

Kínverska tennisstjarnan Peng Shuai er horfin eftir að hafa sakað fyrrverandi varaforsætisráðherra landsins, Zhang Gaoli, um kynferðisofbeldi.

Peng sakaði Zhang um að hafa neytt sig til að stunda kynlíf með sér í færslu á samfélagsmiðlinum Weibo. 

Færslunni var fljótlega eytt sem og öðru efni Peng á Weibo. Þá var ekki einu sinni hægt að leita eftir orðinu tennis á Weibo sem kínverski kommúnistaflokkurinn vaktar. Ekki hefur sést til Peng síðan hún skrifaði færsluna.

Talið er að þetta sé í fyrsta sinn sem jafn háttsettur embættismaður í Kína er sakaður um kynferðisofbeldi. Zhang, sem er 75 ára, var varaforsætisráðherra Kína á árunum 2013-18 og var náinn samverkamaður forsetans Xi Jinping. Zhang hefur ekki tjáð sig um ásakanir Pengs.

Hin 35 ára Peng vann Wimbledon mótið 2013 og Opna franska meistaramótið ári seinna í tvíliðaleik. Um tíma var hún í efsta sæti heimslistans í tvíliðaleik. Peng komst hæst í 14. sæti heimslistans í einliðaleik og komst í undanúrslit í einliðaleik á Opna bandaríska 2014.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×