Skoðun

Hinn langþráði stjórnarsáttmáli

Guðjón Sigurbjartsson skrifar

Mörg stór og mikilvæg mál bíða þess að á þeim verði tekið af djörfung og dug. Vonandi hinir þjóðlegu íhaldsflokkarnir sem nú vinna að stjórnarsáttmála sig á og gerast framfarasinnaðir og alþjóðlegir því mikið liggur við fyrir þjóðina. Hér eru nokkur sem spennandi er að sjá hvort og þá hvernig tekið verður á í sáttmálanum.

Loftlagsmál

Til að verða kolefnishlutlaus þurfum við að minnka losun gróðurhúsalofttegunda (GHL) eða binda um 15 milljón tonn (MT) á ári. Fljótvirkustu og hagkvæmustu leiðirnar eru:

  • Endurheimta þarf ónotað votlendi. Þurrkað votlendi losar um 2/3 af losun Íslands eða um 9 MT. Aðeins um 15% af þurrkuðum mýrum eru notaðar. Þó kosta þurfi einhverju til þá er þetta langódýrasta og áhrifaríkasta aðgerðin sem við getum gripið til.
  • Stöðva þarf lausa göngu búfjár. Beitin dregur úr gróðurþekju landsins og minnir góður bindur minna af GHL. Ódýr og góð leið sem líka eykur skjól og fegrar landið.
  • Græðum landið með skógrækt, lúpínu og fleiri leiðum. Ódýrast og áhrifaríkast af þessu er að sá lúpínu. Allt bindur þetta GHL, myndar skjól og fegrar landið.
  • Að sjálfsögðu halda áfram orkuskipum í samgöngum og iðnaði sem reyndar er á dagskránni.

Orkumál

  • Opna á möguleikana á stórum vindmyllugörðum á heppilegum stöðum á landinu. Vindorkan er græn og hagkvæm fyrir landið. Þetta getur orðið ný undirstaða undir velmengun landsmanna og dregið úr notkun kola til raforkuframleiðslu annars staðar á hnettinum.
  • Opna á möguleikann á raforkusæstreng til Færeyja og Skotlands, án verulegrar áhættu fyrir ríkissjóð. Það mun nýta okkar orkukerfi betur, stórauka verðmæti okkar orkuauðlinda og gera okkar grænu orku að markaðsvöru í Evrópu, sem draga mun úr notkun mengandi orku þar.

Heilbrigðismál

  • Stórbæta heilbrigðisþjónustu með því að fela Sjúkratryggingum (ættu að heita Heilsutryggingar) að semja við einkasjúkrahús á tilteknum sviðum svo sem varðandi liðskiptiaðgerðir. Samkeppni örfar allt kerfið til dáða.
  • Tökum upp viðbótar heilsutryggingar eins og gert hefur verið í Danmörk, Svíþjóð og víðar. Fyrirkomulagið er svipað og varðandi viðbótar lífeyrissparnað. Semja þarf um þetta í næstu kjarasamningum með aðkomu stjórnvalda, sem þurfa að aðlaga skattkerfið. Viðbótar tryggingar tryggja fólki betri fyrirbyggjandi heilsuvernd, styttri bið eftir valkvæðum aðgerðum og fleira. Meira fé kemur í kerfið, það verður skilvirkara og allir fá betri heilbrigðisþjónustu.

Landbúnaður

Bætum afkomu bænda, lækkum matarútgjöld neytenda með eftirfarandi aðgerðum:

  • Tökum upp grunnstuðning (hærri beingreiðslur) til allra virkra bænda þannig að svari til launa í sambærilegum störfum. Þessi greiðsla verði óháð því hvaða atvinnugrein innan landbúnaðar þeir stunda. Á sama tíma fella niður aðrar stuðningsgreiðslur með tilteknum búgreinum nema í sérstökum tilfellum. Bændum verður frjálst að framleiða það sem þeim hentar og gefur best í aðra hönd.
  • Til viðbótar þarf að umbunum bændum fyrir tiltekin verk svo sem að landgræðslu með lúpínu, skógrækt, endurheimt votlendis, lífræna ræktun og fleira.
  • Fellum á móti niður tolla og vörugjöld á matvæli. Það lækkar matarútgjöld á mann um nálægt 150.000kr. á ári, sem gerir 450.000 kr. á 3ja manna fjölskyldu á ári og kemur ferðaþjónustunni um allt land vel.

Hálendið

Hálendið verði í raun sameign þjóðarinnar. Skipulag þess og nýtingar verði í þágu almennings í öllu landinu.

  • Skipulagðir verði uppbyggðir heilsárs hálendisvegir. Þeir stytta vegalengdir milli landshluta og opna almenningi aðgang að því. Þeir eru hagkvæmir í PPP framkvæmd þannig að þetta þarf ekki að kosta skattgreiðendur mikið. Þeir auka upplifun ferðamanna og auðvelda þróun ferðaþjónustunnar út um land.
  • Uppfærum aðferðir við ákvarðanatöku varðandi virkjanakosti og tengt kerfi, þannig að eðlilegar niðurstöður fáist á eðlilegum tíma, jafnan í almannahag.
  • Gerum ráð fyrir nokkrum vindmyllugörðum á völdum atviknum stöðum á hálendinu og jafnvel einhverjum vatnsaflsvirkjunum, þó þannig að sem minnst umhverfisáhrif verði.

Húsnæðismál

Komum lagi á húsnæðismarkaðinn með betri fjármögnun þannig að framboð batni, kostnaðarverð íbúða lækki og dragi úr verðbólumyndun vegna skorts á húsnæði. Margt bendir til þess að það megi gera með bættri fjármögnun byggingariðnaðarins með aðkomu lífeyrissjóða.

Að lokum

Fleira mætti nefna. Það verður áhugavert að sjá hversu langt væntanleg ríkisstjórn kemst með þessi brýnu verkefni á næstu fjórum árum.

Höfundur er viðskiptafræðingur.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×