Lífið

„Viljið þið biðja fyrir mér, ég held að ég sé að fara deyja“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Sigga Dögg var í lífshættu þegar hún eignaðist sitt þriðja barn.
Sigga Dögg var í lífshættu þegar hún eignaðist sitt þriðja barn. Vísir/vilhelm

Sigríður Dögg Arnardóttir, betur þekkt sem Sigga Dögg, er einn þekktasti kynfræðingur landsins. Hún hefur vakið mikla athygli fyrir sína nálgun í starfi, gefið út bækur, haldið úti sjónvarpsþætti á Stöð 2 og margt fleira.

Sigga Dögg er gestur vikunnar í Einkalífinu. Sigríður opnaði sig um virkilega erfiða fæðingarreynslu sína þegar hún fæddi sitt þriðja barn.

„Mitt fæðingarferli hefur almennt verið dramatískt. Ég hef misst nokkrum sinnum fóstur, eitt barnanna minna fæddist veikt og allskonar stöff,“ segir Sigga og heldur áfram.

„Meðgangan gekk þarna alveg ágætlega nema ég var rosalega járnlítil. Ég var svo járnlítil og þegar ég mætti einu sinni í mæðraskoðun sagði hún við mig, ég skil ekki alveg hvernig þú gast labbað hingað. Hún skrifar upp á einhvern tuttugu og fimm þúsund króna reikning í apótekinu og ég átti að kaupa öll heimsins fæðubótarefni.“

Sigga segir að barnið hafi snúið vitlaust og af því að hún hafði áður farið í keisara mátti hún ekki reyna hefðbundna fæðingu.

„Svo fer ég í þennan keisara en þar var ein bláæð sem var svo þrútin að hún fór í sundur. Mér skilst að það að reyna sauma það saman sé eins og að sauma saman slím. Hann fæðist svo heilbrigður og flottur og ég fæ hann í fangið. Svo finn ég að mér byrjar að sundla og ég sé síðan að það fyllist skurðstofan af fólki. Allt í einu eru tuskur farnar að fljúga á gólfið og ég segi bara, takið barnið. Þarna er ég að detta út. Þá er fyrrverandi manninum mínum og barninu bara hent út. Svo er bara sett á mig gríma og ég svæfð.“

Klippa: Einkalífið - Sigga Dögg

Hún segir að það hafi einfaldlega gusast út blóð og læknarnir hafi ekki náð tökum á blæðingunni.

„Þeir í raun bara loka skurðinum og vona það besta. Svo ranka ég við mér einhverjum tíu tímum seinna á gjörgæslu. Þeir segja að næstu stundir séu krítískar og það þurfi að fylgjast vel með. Ég var ekkert búin að sjá drenginn minn og þetta var bara virkilega grillað. Ég var ógeðslega hrædd, alveg svona virkilega hrædd. Svo kemur læknirinn og segir við mig, staðan er ekki góð. Þú ert með miklar innvortis blæðingu og ég ætla hringja á sjúkrabíl og það er búið að ræsa út sérfræðiteymi og það er verið að undirbúa skurðstofuna. Ég bara meðtók þetta ekki og fer bara í hysteríska hræðslu. Við erum skilin eftir tvö ein inni á stofu með drenginn og ég fer bara að gráta alveg óstjórnlega. Eftir keisara er maður ekki með magavöðva. Það að hlægja er hræðilegt en hvað þá að gráta.“

Sigga segist hafa sent skilaboð á þrjár af hennar hjartans vinkonum á þessum tímapunkti.

„Ég sendi í algjöru panikk. Viljið þið biðja fyrir mér, ég held að ég sé að fara deyja. Mér finnst mjög erfitt að tala um þetta. Pabbi minn vaknar um miðja nótt þarna og segir bara strax, hringjum í Siggu, það er ekki allt í lagi. Þá svarar minn fyrrverandi og segir að ég sé að fara í akút aðgerð og biður þau um að koma. Þetta var allt svo hræðilegt og ég var svo ógeðslega lífhrædd þarna.“

Hún fer í þessa aukaaðgerð í kjölfarið og var vakandi í gegnum hana.

„Þetta var svo grillað. Ég hef alltaf notað húmorinn og ég var bara eitthvað að grínast við skurðlækninn til að lina sársaukann. Um að ég hafi átt bólfélaga sem leit út eins og hann.“

Aðgerðin gekk vel en eftir hana kom í ljós að Sigríður getur ekki eignast fleiri börn. Sigga ræður um fæðinguna þegar um 30 mínútur eru liðnar af þættinum hér að ofan. 

Í þættinum ræðir Sigga Dögg einnig um starf sitt, Metoo byltinguna hér á landi, skilnaðinn við barnsfaðir hennar, um þær bækur sem hún hefur gefið út, vinnuna í sjónvarpi og margt fleira.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×