Erlent

Ís­lendingum í Eþíópíu ráð­lagt að virða lokanir og til­mæli

Atli Ísleifsson skrifar
Þúsundir hafa þegar látist í átökunum en á síðustu dögum hefur herliðið frá Tigray tekið nokkrar lykilborgir í grennd við höfuðborgina.
Þúsundir hafa þegar látist í átökunum en á síðustu dögum hefur herliðið frá Tigray tekið nokkrar lykilborgir í grennd við höfuðborgina. Getty

Óttast er að borgarastríðið í Eþíópíu, á milli stjórnarhersins og hermanna frá Tigray-héraði fari brátt að bitna á íbúum höfuðborgarinnar Addis Ababa.

AP segir frá því að þúsundir hafi þegar látist í átökunum og á síðustu dögum hafi herliðið frá Tigray tekið nokkrar lykilborgir í grennd við höfuðborgina. Ákvað ríkisstjórn landsins á dögunum að lýsa yfir neyðarástandi í öllu landinu.

Íslenska utanríkisráðuneytið sendi í gær frá sér tilkynningu á Facebook þar sem öllum Íslendingum í Eþíópíu er ráðlagt að virða allar lokanir og tilmæli yfirvalda og fylgjast vel með fjölmiðlum á staðnum.

Þá segir að sendiráð Íslands í Kampala í Úganda fylgist vel með ástandinu og að danska sendiráðið í Eþíópíu muni aðstoð Íslendinga í neyð.

Þeir sem eru í landinu eru því hvattir til að skrá sig strax hjá Dönum og fylgjast með ráðleggingum þeirra. Þá er einnig hægt að hafa samband við borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins ef aðstoðar er þörf.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×