Körfubolti

Magnaður Morant skráði sig í sögurbækur Memphis

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ja Morant fór hamförum í nótt. Hér standa Russell Westbrook, Anthony Davis og Kent Bazemore aðgerðalausir meðan Morant leikur listir sínar.
Ja Morant fór hamförum í nótt. Hér standa Russell Westbrook, Anthony Davis og Kent Bazemore aðgerðalausir meðan Morant leikur listir sínar. Harry How/Getty Images

Hinn stórskemmtilegi leikstjórnandi Memphis Grizzlies átti magnaðan leik er lið hans tapaði naumlega fyrir Los Angeles Lakers í NBA-deildinni í körfubolta. Hann skráði sig í sögubækur Grizzlies í leiknum.

LeBron James og félagar höfðu tapað tveimur fyrstu leikjum sínum og voru að vissu leyti með bakið uppvið vegg er liðið mætti Memphis í nótt. Þrátt fyrir magnaðan leik Morant fór það svo að Lakers marði sigur með þriggja stiga mun, 121-118.

Morant skoraði 40 stig í leiknum og gaf 10 stoðsendingar. Er hann fyrsti leikmaður í sögu Memphis Grizzlies sem skorar 40 stig eða meira ásamt því að gefa 10 stoðsendingar í einum og sama leiknum.

Morant fór þó illa að ráði sínu á vítalínunni undir lok leiks. Það er þó erfitt að kenna honum um tapið þar sem hann var aðalástæða þess að Memphis átti möguleika á sigri til að byrja með.

Eins og Kjartan Atli Kjartansson kom inn á í upphitun Vísis fyrir NBA-deildina þá verður einkar áhugavert að fylgjast með Morant og Memphis í vetur. Liðið hefur unnið tvo af fyrstu þremur leikjum sínum og var hársbreidd frá því að halda sigurgöngunni áfram gegn Lakers í nótt.


NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×