Þetta kemur fram á vef Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar þar sem meðal annars er vísað í hagspá Landsbankans sem gefin var út í vikunni. Þar kom fram að greinendur bankans telji mögulegt að jafnvægi náist á húsnæðismarkaði, eftir miklar hækkanir upp á síðkastið.
Sérfræðingar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar telja hins vegar ekki víst að jafnvægi náist á húsnæðismarkaði á næstu árum nema meira verði bætt í íbúðabyggingu.
Telur hagdeild stofnunarinnar að það þurfi að koma um þrjú þúsund nýjar íbúðir að koma á markaðinn á ári út þennan áratug til að uppfylla húsnæðisþörf landsmanna. Spá stofnunarinnar gerir einnig ráð fyrir að að á fyrri hluta áratugarins þurfi þó að byggja fleiri en þrjú þúsund íbúðir, bæði vegna óuppfylltrar íbúðarþarfar sem sé til staðar í dag og vegna hraðari fólksfjölgunar á þeim tíma.
Ráðleggur stofnunin að byggðar séu um fimm hundruð fleiri íbúðir á næstu árum, eða allt að 3.500 á ári, bæði vegna viðvarandi óuppfylltrar íbúðaþarfar og vegna fólksfjölgunar og breytinga sem eru að verða á heimilisgerð.
Skiptar skoðanir á stefnu borgarinnar
Undinfarið eitt og hálft ár eða svo hefur myndast umframeftirspurn efir íbúðarhúsnæði víða um land eftir að bankar lækkuðu vexti á húsnæðislánum. Í Reykjavík og víðar hafa margar íbúðir selst yfir fasteignamati og jafnvel sölumati þótt dregið hafi úr því að undanförnu.
Pawel Bartoszek formaður skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur sagði í Pallborðinu á Vísi í gær að aldrei hefðu verið byggðar eins margar íbúðir í borginni og gert hefði verið á undanförnum árum. Eyþór Arnalds oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn og Kolbrún Baldursdóttur oddviti Flokks fólksins gagnrýndu hins vegar meirihlutann fyrir einstrengingslega stefnu í íbúðamálum.