Powell lést vegna fylgikvilla Covid-19 í gær, 84 ára að aldri. Hann var fyrsti blökkumaðurinn til að gegna embætti formanns hershöfðingjaráðs Bandaríkjanna og utanríkisráðherra. Powell var repúblikani og var utanríkisráðherra í fyrri ríkisstjórn George W. Bush frá 2001 til 2005.
Þrátt fyrir aðkomu Powell að því að réttlæta seinna Íraksstríðið á fölskum forsendum árið 2003, sem hann kallaði sjálfur blett á ferli sínum, hafa jafningjar hans ausið yfir hann lofi eftir að fregnir af andláti hans spurðust. Barack Obama, fyrrverandi forseti, lýsti honum sem fyrirmyndar föðurlandsvin í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér í gær. Bush sagðist harmi sleginn yfir fráfalli Powell sem hann sagði hafa notið virðingar bæði heima fyrir og erlendis.
Trump ákvað aftur á móti að nýta tækifærið til að sparka í Powell látinn og fá útrás fyrir beiskju yfir hvernig fjallað hefur verið um hann sjálfan í yfirlýsingu sem hann lét senda út í sínu nafni í dag.
„Það er dásamlegt að sjá Colin Powell, sem gerði stór mistök með Írak og, eins og frægt er orðið, með svokölluð gereyðingarvopn, fá svona fallega meðferð hjá Falsfréttunum að sér látnum. Vona að það komi fyrir mig einhvern daginn,“ sagði í yfirlýsingu Trump.
Given the chance to be gracious about someone s death, or say nothing at all, Trump takes a decidedly different route pic.twitter.com/HMgFAiiRcK
— Maggie Haberman (@maggieNYT) October 19, 2021
Þó að Powell hafi verið repúblikani varð hann afhuga flokknum eftir að hann tók upp harðari og öfgakenndari stefnu á þessari öld. Þannig lýsti Powell yfir stuðningi við demókratann Obama í forsetakosningnum árið 2016 og við Hillary Clinton árið 2016. Það virðist hafa farið sérstaklega fyrir brjóstið á Trump.
„Hann var klassískur RINO [Repúblikani aðeins að nafninu til], ef hann var það einu sinni, alltaf fyrstur til að ráðast á aðra repúblikana. Hann gerði fjölda mistaka en hvað um það, hvíli hann í friði!“