Innlent

Á­kærður fyrir að hafa nauðgað og í­trekað beitt unnustu sína of­beldi

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Málið er til meðferðar í Héraðsdómi Reykjavíkur. 
Málið er til meðferðar í Héraðsdómi Reykjavíkur.  Vísir/Vilhelm

Karlmaður hefur verið ákærður fyrir brot í nánu sambandi fyrir að hafa margveist að þáverandi unnustu sinni, ráðist á hana og nauðgað henni í lok árs 2018 og byrjun árs 2019. Maðurinn hefur verið krafinn um að greiða konunni tvær milljónir króna í miskabætur fyrir ofbeldið.

Ákæran, sem fréttastofan hefur undir höndum, er í þremur liðum. Í fyrsta lið er maðurinn ákærður fyrir að hafa aðfaranótt 9. desember 2018 gerst sekur um brot í nánu sambandi með því að hafa hrint þáverandi unnustu sinni, hent henni utan í húsgögn og slegið hana með krepptum hnefa í bringuna. Afleiðingarnar hafi verið þær að hún hlaut mar á hægri olnboga, bringuna og víða um líkamann.

Í öðrum lið er maðurinn ákærður fyrir nauðgun og brot í nánu sambandi með því að hafa aðfaranótt 29. desember sama ár togað í hár konunnar, veitt henni hnéspark í vinstra læri og kvið og slegið hana í andlitið. Þá hafi hann tekið um háls hennar með báðum höndum þegar hún reyndi að forða sér úr íbúðinni, dregið hana aftur inn í íbúðina og farið með hana inn í svefnherbergi þar sem hann hafi klætt hana úr að neðan og sett fingur í leggöng hennar.

Afleiðingarnar hafi verið þær að konan hlaut sár á vinstri kinn, mar á vinstri hluta kjálka, mar á báðum fram- og upphandleggjum, mar yfir vinstri olnboga, vinstri öxl og vinstri upphandlegg og fjölda marbletta á báðum fótleggjum og lærum.

Í þriðja ákærulið er maðurinn ákærður fyrir að hafa sunnudaginn 20. janúar 2019 hent konunni á spegil, tekið um andlit hennar þar sem hann hélt henni niðri í gólfinu og hent henni á sjónvarpsskenk með þeim afleiðingum að konan hlaut mar á efri hluta baks og tognun í baki.

Málið er til meðferðar í Héraðsdómi Reykjavíkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×