Innlent

Fram­kvæmda­stjóri hótelsins búinn að skoða upptökurnar og sér ekkert at­huga­vert

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Upptökur öryggismyndavéla á Hótel Borgarnesi ættu að geta eytt vafa um hvort átt hafi verið við kjörgögnin.
Upptökur öryggismyndavéla á Hótel Borgarnesi ættu að geta eytt vafa um hvort átt hafi verið við kjörgögnin. vísir/arnar

Hótel Borgar­nes hefur af­hent lög­reglu upp­tökur úr öryggis­mynda­vélum sínum frá því um helgina þegar talning á at­kvæðum í Norð­vestur­kjör­dæmi fór fram. Þetta stað­festir fram­kvæmda­stjóri hótelsins, sem segist sjálfur hafa horft á hluta þeirra.

Hann vill þó ekki segja hvort það sjáist á mynda­vélunum að ein­hver fari inn í salinn þar sem ó­inn­sigluð at­kvæðin voru geymd en Ingi Tryggva­son, for­maður yfir­kjör­stjórnar, hefur borið það fyrir sig að með því að læsa salnum hafi öryggi at­kvæðanna verið tryggt.

Ljóst er þó að starfs­menn hótelsins hafi haft að­gang að lyklum salarins og sagði Ingi í sam­tali við Vísi í gær að það gæti vel verið að ein­hver þeirra hefði farið inn í salinn milli talninganna á meðan yfir­kjör­stjórnin lagði sig.

Lögregla vill ekkert segja

Karl Gauti Hjalta­son, frá­farandi þing­maður Mið­flokksins, hefur kært frá­gang Ingva á at­kvæðunum til lög­reglu. Gunnar Örn Jóns­son, lög­reglu­stjóri á Vestur­landi, stað­festir við frétta­stofu að málið sé í rann­sókn. Það sé í for­gangi hjá lög­reglunni.

Hann vill þó ekkert segja meira um málið, hvorki hvort lög­regla sé með upp­tökur úr mynda­vélum í salnum til skoðunar eða hvort grunur leiki á því að átt hafi verið við at­kvæðin.

Útilokar ekki að einhver hafi farið inn í salinn

Steinn Agnar Péturs­son, fram­kvæmda­stjóri Hótels Borgar­ness, segir þó í sam­tali við frétta­stofu að hann hafi séð hluta upp­takanna. Að­spurður segir hann að lög­regla hafi fengið þær af­hentar og að enginn annar hafi fengið að­gang að þeim.

„Það eru auðvitað engar myndavélar inni í talningasalnum sjálfum. En það eru myndavélar í forsalnum sem myndu alltaf sýna það ef einhver færi inn í talningasalinn,“ segir Steinn.

Og sést einhver fara inn í salinn á myndavélunum?

„Ég vil ekki svara því á meðan þetta er í rannsókn hjá lögreglu. Þetta er bara í rannsókn hjá þeim en hvað mig snertir að þá er það mín bjarg­fasta trú að ekkert ó­eðli­legt hafi átt sér stað með þessi gögn,“ segir hann.

Hann telur að margir hafi gert of mikið úr málinu. „Í mínum huga er það af og frá að eitt­hvað svindl hafi átt sér stað,“ segir hann.

En þó enginn hafi átt við gögnin úti­lokar það ekki að kosninga­lög hafi verið brotin eins og Karl Gauti vill meina og lög­regla hefur nú til rann­sóknar.

Í þeim segir skýrt að yfir­kjör­stjórn skuli setja alla notaða kjör­seðla undir inn­sigli að talningu lokinni og að þeir skuli geymdir þar til Al­þingi hafi úr­skurðað um gildi kosninganna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×