Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur telur ólíklegt að niðurstaða þar hafi sömu áhrif og endurtalning í Norðvesturkjördæmi sem breytti miklu um röðun jöfnunarþingmanna. Þó sé ekki útilokað að mistök komi einnig í ljós í Suðurkjördæmi og í versta falli þurfi að kjósa aftur í kjördæmunum með tilheyrandi töf á niðurstöðum.
Fimm framboð vildu endurtalningu
Þórir Haraldsson, formaður yfirkjörstjórnar í Suðurkjördæmi, á von á því að sama niðurstaða komi út úr endurtalningunni og þeirri fyrstu.
„Að okkar mati var þetta ljóst og við skiluðum okkar niðurstöðum en síðan kom í ljós að það munaði mjög fáum atkvæðum á milli manna,“ sagði Þórir í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.
Fimm framboð óskuðu eftir endurtalningu í kjördæminu og taldi yfirkjörstjórn ástæðu til að verða við þeirri beiðni.
Er fólkið orðið þreytt hérna?
„Neinei, við erum bara kát og glöð. Auðvitað eru þetta orðnir langir dagar en gangverk lýðræðisins verður að hafa sinn gang og traust á kosningum er mikils virði og þess vegna erum við hér í kvöld.“
Grunnatriði að traust ríkji áfram
Stefanía segir mikilvægt í sterku lýðræðisríki að traust sé borið til niðurstaðna kosninga og fólk hlýti niðurstöðunum. Breytingar sem þessar geti vissulega haft áhrif á trúverðugleika þeirra.
„Þetta er algjört grunnatriði. Það má ekki vera neinn vafi í hugum fólks um réttmæti niðurstaðna því það grefur undan öllu lýðræðiskerfinu okkar. Við höfum verið svo heppin að það hefur ríkt traust hér en í ýmsum öðrum löndum, meðal annars í Bandaríkjunum, hefur verið vaxandi vantraust í gangi,“ sagði Stefanía í kvöldfréttum Stöðvar 2.
Vísar hún til að mynda til þess að um 70 prósent kjósenda Repúblikana viðurkenni ekki enn þá staðreynd að Joe Biden hafi unnið forsetakosningarnar í nóvember 2020.
Aðspurð um næstu skref sagði Stefanía þau vera að fara yfir gögnin sem óskað hafi verið frá yfirkjörstjórnum.
„Mögulega eru skýringarnar viðhlýtandi og málið þannig afgreitt en komi í ljós að það hafi orðið misbrestur á framkvæmd kosninganna þá er illt í efni, ef svo má segja. Í versta falli yrði að kjósa aftur í þessu kjördæmi og þá vitum auðvitað ekki hvernig kosningarnar fóru fyrr en það liggur allt saman fyrir,“ sagði Stefanía.