Skoðun

Það sem ekki er rætt

Þuríður Harpa Sigurðardóttir skrifar

Frambjóðendur voru mættir í Silfri Egils í gær, sunnudag, til að heilla okkur kjósendur. Ég horfði á Ásmund Einar, ráðherra fatlaðs fólks sem að mestu gleymdi kjaramálum okkar á síðasta kjörtímabili, og aðra frambjóðendur, sleppa því algerlega að ræða málefni og stöðu fatlaðs fólks. Ég tiltek félags- og barnamálaráðherra sérstaklega, þar sem hann er ráðherra fatlaðs fólks, okkar ráðherra, sá sem átti að taka okkar mál sérstaklega upp á sína arma!

Í stuttu máli varð ég fyrir vonbrigðum með frambjóðendurna upp til hópa.

Ég minni á að fatlað fólk sat eftir í hruninu og hefur ekki enn, rúmum áratug síðar, fengið leiðréttingu. Fatlað fólk hefur í dag lægstu framfærslu allra, lægri en atvinnulausir sem eru

þó aðeins tímabundið án tekna, og fatlað fólk er langt undir lágmarkslaunum.

Allt tal fráfarandi stjórnvalda um aukinn kaupmátt fatlaðs fólks er ekkert nema gaslýsing! Ef horft er á heildina þá býr fatlað fólk við mismunun, útilokun, afkomuóöryggi, réttleysi, þöggun og þvingun. Það er án tækifæra, án mannsæmandi framfærslu og mjög stór hluti býr við fátækt. Fátækt fatlaðs fólks kemur niður á börnum þeirra en mest auðvitað á fólkinu sjálfu sem fær ekki tækifærin og getur því ekki tekið þátt í samfélaginu til jafns við aðra.

Í nýrri rannsókn Vörðu, rannsóknarstofnun vinnumarkaðarins, kemur fram að 8 af hverjum 10 þeirra sem treysta á almannatryggingakerfið sér til framfærslu, eiga erfitt, eða mjög erfitt með að ná endum saman. Staðan versnar til muna ef viðkomandi er einstætt foreldri. Þá erum við að tala um 90% sem ná ekki endum saman yfir mánuðinn. Rúmlega 40% þessara einstæðu foreldra geta ekki veitt börnum sínum eins næringarríkan mat og þeir vilja, né nauðsynlegan fatnað eða greitt kostnað vegna skipulagðra tómstunda.

Rúmlega 80% hafa neitað sér um heilbrigðisþjónustu og langflestir segja kostnað helstu ástæðu þess. En þetta er bara ekki rætt.

Hér vantar húsnæðisúrræði, margskonar þjónustu, aðgengi að menntun og atvinnumöguleikum. Fatlað fólk þarf að neita sér um svo margt, sem aðrir líta á sem sjálfsagðan hlut og velta ekkert sérstaklega fyrir sér. Til að mynd að kynda húsnæði sitt nægjanlega.

Málefni fatlaðs fólks eru stöðugt stækkandi svöðusár í okkar samfélagi. Sér í lagi það sem varðar gríðarlegar skerðingar og skatta á mjög lágar tekjur. Það átti að laga á síðasta kjörtímabili en var aflýst, nánast með öllu.

ÖBÍ hefur átt fundi með nær öllum framboðum þar sem við höfum bent á 24 góðar leiðir að réttlátara samfélagi. Við höfum kynnt þeim það sem brennur helst á fötluðu fólki. Þar er framfærslan langefst á blaði.

Hvað ætlar þú ágæti kjósandi sem býrð við veikindi og fötlun að kjósa? Hvað ætlar fjölskylda þín að kjósa? Hverju vilt þú breyta?

Höfundur er formaður Öryrkjabandalagsins.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×