Neytendur

Allt að 143 prósenta verð­munur í verð­könnun ASÍ

Eiður Þór Árnason skrifar
Bónus var oftast með lægstu verðin.
Bónus var oftast með lægstu verðin. Vísir/Vilhelm

Bónus var oftast með lægsta verðið í nýrri verðkönnun verðlagseftirlits ASÍ á matvöru og hreinlætis- og snyrtivöru. Iceland var oftast með hæsta verðið.

Bónus var með lægsta verðið í 94 tilvikum en Krónan næst oftast eða í 12 tilvikum. Iceland var með hæsta verðið í 44 tilvikum en Hagkaup næst oftast eða 39 sinnum, Fjarðarkaup 26 sinnum og Kjörbúðin í 24 tilvikum. Könnunin fór fram þann 8. september.

Mikill munur var á hæsta og lægsta verði á mörgum vörum í könnuninni. Algengast var að munur á matvöru og öðrum heimilisvörum væri undir 20% eða í 48 tilfellum af 135 en í 24 tilvikum var yfir 60% verðmunur.

Munaði mestu í frystivörum

Mikill verðmunur var í flokki frystivara eða 38 til 143%. Mest var 143% munur á hæsta og lægsta kílóverði af frosnum jarðarberjum en þá var lægsta verðið í Bónus eða 498 kr/kg en hæst í Heimkaup eða 1.209 kr/kg.

Allt að 105% verðmunur var á brauð- og kornvöru og var mestur verðmunur á Jacob‘s tekexi eða 105%. Þar var verðið aftur lægst í Bónus og hæst í Heimkaup.

Skoða má niðurstöður könnunarinnar hér fyrir neðan en hægt er að velja milli vöruflokka fyrir ofan töfluna.

Kjöt- og fiskvörur vega þungt í vörukörfu margra og geta verið nokkuð dýrar í innkaupum en í mörgum tilfellum var mikill munur á hæsta og lægsta kílóverði í þessum vöruflokki í könnuninni. Þannig var 69% eða 900 kr. munur á hæsta og lægsta kílóverði á frosnum þorskbitum, lægst var verðið í Krónunni, 1.299 kr. en hæst í Kjörbúðinni, 2.199 kr.

Einnig var mikill verðmunur á lambakjöti eða 50% munur á hæsta og lægsta verði á heilu, frosnu og ókrydduðu lambalæri. Lægst var verðið í Bónus, 1.198 kr/kg, en hæst í Fjarðarkaupum, 1.798 kr/kg.

Í könnuninni var hilluverð á 135 vörum skráð niður. Ef afsláttur er tekinn fram á hillu var hann tekinn til greina. Nánar er fjallað um könnunina á vef ASÍ

Könnunin var framkvæmd í eftirtöldum verslunum: Nettó Mosfellsbæ, Bónus Smáratorgi, Krónunni Selfossi, Fjarðarkaupum, Iceland Engihjalla, Hagkaup Skeifunni, Kjörbúðinni Sandgerði og á Heimkaup.is. Að sögn verðlagseftirlits ASÍ er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.


Tengdar fréttir

Mikill munur á verði á sumarnámskeiðum hjá íþróttafélögum

Heilmikill munur er á verði á þeim námskeiðum sem standa grunnskólabörnum til boða yfir sumartímann samkvæmt úttekt verðlagseftirlits Alþýðusambands Íslands. Tímagjald fyrir íþrótta- og leikjanámskeið á Akureyri er 133 krónur á meðan gjaldið er þrisvar til fjórum sinnum hærra í Kópavogi.

Allt að 159 prósenta munur á hæsta og lægsta verði

Yfir 100% munur er á hæsta og lægsta verði á dekkjaskiptum, umfelgun og jafnvægisstillingu hjá 48 fyrirtækjum víðs vegar um landið. Þar sem hann er hlutfallega mestur munar um 159% á verði eða 9.510 krónum. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×