Erlent

Vilja að sett verði sér­stök lög um þjófnað á gælu­dýrum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lögin eiga að taka tillit til þess að gæludýr eru ekki eins og hver annar hlutur.
Lögin eiga að taka tillit til þess að gæludýr eru ekki eins og hver annar hlutur.

Stjórnvöld á Englandi skoða nú að setja sérstök lög um þjófnað á gæludýrum eftir aukinn fjölda þjófnaðarmála í kórónuveirufaraldrinum. Eins og stendur er farið með þjófnað á gæludýrum eins og þjófnað á hverri annarri eign.

Um er að ræða eina af tillögum vinnuhóps sem komið var á laggirnar vegna verulegrar aukningar á gæludýraþjófnunum síðustu misseri. 

Í fyrra bárust lögreglu um tvö þúsund tilkynningar um þjófnað á hundum en sjö af hverjum tíu tilkynningum um gæludýraþjófnað eru vegna hunda.

Samkvæmt skýrslu vinnuhópsins jókst verðmæti fimm vinsælustu hreinræktuðu hundategundanna um allt að 89 prósent á meðan fyrsta bylgja faraldursins stóð yfir á Englandi. Vinnuhópurinn segir þetta eina ástæðu þess að þjófnuðum hafi fjölgað.

Þá fjölgaði Google-leitum að „kaupa hvolp“ um 160 prósent á tímabilinu mars til ágúst 2020.

Vinnuhópurinn segir lögin eins og þau standa ekki gera ráð fyrir þeim tilfinningalega skaða sem fylgir því að missa gæludýrið sitt í hendur óprúttina aðila. Hann leggur til að aukið eftirlit verði haft með eignarhaldi hunda og að eigendur geti skráð dýrin sín hjá lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×