„Hlaupið er ekki ennþá byrjað að sjást við Sveinstind. Það er á leiðinni undan jökli í þessum töluðu orðum en við búumst ekki við því að sjá það við Sveinstind fyrr en síðar í dag,“ sagði Hulda Rós Helgadóttir náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands rétt fyrir hádegisfréttir í dag.
Hún segir að miðað við fyrr hlaup megi gera ráð fyrir því að hlaupið nái hámarki við Sveinstind rúmum 30 klukkustundum eftir það.
„Svo berst hlaupið niður ánna og er þá u.þ.b. tíu klukkustundir að ná að þjóðveginum,“ segir Hulda Rós.
Hulda segir mögulegt að hlaupið fari yfir þjóðveg 1 við Eldvatn í Ásum.
„Það er ekki útilokað að það gerist. Það er náttúrulega búið að hlaupa úr vestari- katlinum og það eru pollar við veginn sem þýðir að vatnið er ekki að svo auðveldlega að hripast niður jarðveginn. Þannig að það getur verið að það fari yfir þjóðveginn,“ segir Hulda.
Ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórann á Suðurlandi lýsti yfir hættustigi almannavarna vegna Skaftárhlaups í gær en síðustu daga hefur líka hlaupið úr Vestari Skaftárkatli. Björn Ingi Jónsson er verkefnisstjóri Almannavarna á Suðurlandi.
„Það er nóg vatn fyrir á svæðinu svo bætist næsta hlaup við þannig að við reiknum með hlaupi sem er rúmlega það sem var 2018,“ segir Björn Ingi.
Björn segir að fari hlaupið yfir þjóðveginn sé hjáleið á svæðinu.
„Þarna á svæðinu höfum við hjáleið niður í Meðalland og við erum komin með sólarhringsvakt til að fylgjast með því,“ segir hann.
Hann segir að farið verði í lokanir og hugsanlegar rýmingar á svæðinu í dag.
„Við förum í þessar aðgerðir til að koma í veg fyrir að fólk verði innlyksa á svæðinu. Við höfum daginn í dag til þess að vinna að því að koma fólki af svæði sem er ekki öruggt,“ segir Björn.
Hann segir að Almannavarnir sendi frá sér kort með lokunum á svæðinu á næstu klukkustundum.