Almenn grímuskylda tók gildi á ný í lok júlímánaðar í rýmum þar sem sem ekki er hægt að tryggja eins metra nálægðarmörk. Fyrst var nokkur óvissa um hvort grímuskyldan ætti við í verslunum en rekstraraðilar matvöruverslana tóku sig saman og kölluðu eftir því að viðskiptavinir bæru grímu.
Í tilkynningu frá Krónunni eru viðskiptavinir og starfsfólk beðin um að huga áfram að eins metra nálægðarreglunni og hvött til að nýta sér sótthreinsispritt í verslununum. Öllum sé að sjálfsögðu áfram velkomið að bera grímur.

Ásta Sigríður Fjeldsted, framkvæmdastjóri Krónunnar, segir að starfsfólk muni sem fyrr sjá til þess að hugað sé að sóttvörnum í hvívetna.
„Grímuskyldu var komið á í sumar þegar meiri óvissa ríkti í samfélaginu varðandi útbreiðslu COVID. Nú teljum við að viðskiptavinir og starfsfólk okkar sé orðið þaulvant að meta sjálft hvenær þörf sé á grímu og hvenær ekki – og að 1m fjarlægðartakmörk sé auðvelt að virða í okkar verslunarrýmum.
Áfram verður lögð mikil áhersla á annars konar sóttvarnir í okkar verslunum svo sem aukin þrif og notkun sótthreinsispritts á milli afgreiðslna. Við hvetjum að sjálfsögðu enn til grímunotkunar en leggjum það í hendur viðskiptavina og starfsfólks að meta hvort grímur séu nýttar í verslunum okkar eða ekki,“ segir Ásta Sigríður í tilkynningu.
Uppfært 1. september 2021:
Ásta Sigríður ræddi ákvörðunina í Bítinu í morgun.