Skotárásin átti sér stað síðastliðið fimmtudagskvöld og lauk þannig að byssumaðurinn, sem var einn að verki, skaut að lögreglu. Lögregla skaut þá manninn, sem var í kjölfarið fluttur með sjúkraflugi til Reykjavíkur og er líðan hans stöðug samkvæmt upplýsingum fréttastofu. Engan annan en byssumanninn sakaði. Sveitarstjóri Múlaþings hvetur íbúa Egilsstaða til að standa saman eftir málið, sem hann segir nokkuð áfall.
„Þetta er nokkuð sem við eigum ekkert von á og erum ekkert undir búin, í sjálfu sér. Það er ósköp eðlilegt að þetta hafi haft þau áhrif á fólk að það sé hálfpartinn miður sín. En þetta er eitthvað sem við vinnum svo bara úr,“ segir Björn Ingimarsson sveitarstjóri Múlaþings.

Nokkrar fjölskyldur hafi leitað til áfallamiðstöðvar sem Rauði krossinn hafi komið upp í gær. Hann hvetur fleiri til að gera slíkt hið sama ef það telur þörf á. Björn er ánægður með viðbrögð lögreglu. Tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu var flogið austur í gær, en hefur nú lokið störfum á vettvangi samkvæmt upplýsingum fréttastofu.
„Lögreglan hér hefur verið að vinna mjög gott verk, og gerðu það þarna líka við mjög erfiðar aðstæður. Það er enginn öfundsverður af því að lenda í svona löguðu, en þeir unnu þetta mjög vel.“
Björn segir finna fyrir samheldni meðal íbúa á Egilstöðum, í kjölfar árásarinnar.
„Ég hef ekki skynjað neitt annað en það að íbúarnir séu akkúrat að stíga þau skref að bakka hvern annan upp.“