Sport

Patrekur bætti Íslandsmet í Tókýó

Valur Páll Eiríksson skrifar
Patrekur Andrés Axelsson bætti eigið Íslandsmet í 400 metra hlaupi í flokki blindra.
Patrekur Andrés Axelsson bætti eigið Íslandsmet í 400 metra hlaupi í flokki blindra. Mynd/Facebook

Hlauparinn Patrekur Andrés Axelsson bætti eigið Íslandsmet í 400 metra hlaupi er hann keppti í flokki blindra á Ólympíumóti fatlaðra ásamt meðhlaupara sínum Helga Björnssyni.

Patrekur tók þátt í gríðarsterkri keppni í 400 metra hlaupi í dag. Aðeins fjórir keppendur sem komu í mark á bestum tíma komust í úrslit í greininni en Patrekur kom níundi í mark.

Hann bætti eigið Íslandsmet í greininni í nótt er hann kom í mark á 56,73 sekúndum. Hann bætti met sitt um 22 hundruðustu úr sekúndu, en fyrra met var 56,95 sekúndur.

Patrekur er með arfgengan augnsjúkdóm og fór að missa sjón þegar hann var 19 ára gamall. Hún fór úr 100% í 5% á um hálfu ári. Hann segir í samtali við RÚV að ferli hans frá því þá hafi verið lærdómsríkt.

„Þegar ég var komin á brautina á opnunarathöfninni að þá hugsaði maður mikið til mótlætisins sem mætti manni á leiðinni. Þegar maður efaðist um verkefnið, sá ekki bætingar, og þá fór maður að hugsa um að hætta. En þá var bara ein leið og það var upp og áfram. Svo í morgun, þegar ég fór að hugsa um þetta, að þá féllu tár. Þannig að þetta er búið að vera mjög lærdómsríkt og skemmtilegt ferli síðan ég byrjaði í þessu.“ segir Patrekur í samtali við RÚV.

Tveir sundkappar, þau Már Guðmundsson og Thelma Björg Björnsdóttir, komust bæði í úrslit í sinni grein eftir góðan árangur í undanrásum í nótt. Þau keppa til úrslita í morgunsárið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×