Innlent

Missti stjórn á sér og stuggaði við mót­mælandanum

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Tólf ára sonur Ísaks fékk bólusetningu í Laugardalshöll í dag.
Tólf ára sonur Ísaks fékk bólusetningu í Laugardalshöll í dag. vísir/egill

Faðir barns sem fékk bólu­setningu í morgun hálf sér eftir að hafa stuggað við mót­mælanda sem hrópaði að börnunum að þau væru að fara að láta sprauta í sig efna­vopni. Hann kveðst kannast við manninn og viljað koma honum í burtu frá börnunum.

„Barns­móðir mín var á leið inn með drenginn. Ég ætlaði nú bara sjálfur að bíða út í bíl en svo heyri ég í þessum manni sem kemur þarna og fer að hrópa að börnunum. Og fer þarna út og sé að þetta er maður sem ég kannast við og fannst mjög leiðin­legt að sjá þarna,“ segir Ísak Jóns­son, faðir tólf ára drengs sem fékk bólu­setningu í morgun.

Mót­mælandinn hrópaði yfir röð barna og for­eldra: „Það er verið að fara að sprauta börn með S1-prótein líf­efna­vopni.“ Hann sagði einnig að bóluefnið myndaði blóðkekki hjá 70 prósent þeirra sem fengju það.

Ísak segist fyrst hafa reynt að fá manninn til að yfir­gefa svæðið með því að tala við hann. Hann endaði þó á því að stugga við honum.

„Jú, ég endaði nú á því. Ég hélt að hann hefði nú tekið sönsum og væri hættur en þá byrjar hann aftur og þá svona missi ég svoldið stjórn á mér, ég var orðinn svoldið reiður og þá svona ýti ég að­eins við honum eða reyni bara að koma honum í burtu. Það var eigin­lega það eina sem ég var að hugsa um, að koma bara manninum í burtu úr þessum að­stæðum sem hann hafði komið sér í,“ segir Ísak.

Myndband af atvikinu má sjá hér:

Eftir á að hyggja segist Ísak ekki hafa brugðist rétt við að­stæðunum.

Hann hafði þegar hringt í lög­regluna sem mætti fljót­lega á svæðið og fjar­lægði manninn.

Börnin skelkuð

Hvernig leið fólki í röðinni?

„Það náttúru­lega bara leið engum vel yfir þessu. Svona á­róður er náttúru­lega bara stór­skað­legur. Maður getur fyrir­gefið alls kyns dót sem að er á inter­netinu því það skaðar engan… Þú mátt alveg dreifa því að jörðin sé flöt en svona á­róður er skað­legur. Hann kostar actu­ally manns­líf,“ segir Ísak.

Voru börnin skelkuð?

„Já, mér sýndist það nú að þau hafi orðið svona frekar ó­ró­leg yfir þessu og þetta voru ekki þægi­legar að­stæður fyrir þau til að vera í og ekki til eftir­spurnar að koma þeim í þessar að­stæður.“

Vonar að fleiri mót­mæli ekki 

Hann vonar að fólk hugsi sig tvisvar um áður en það á­kveði að mæta og mót­mæla bólu­setningum.

„Því að fólk tekur sínar á­kvarðanir og þú getur tekið þína á­kvörðun fyrir sjálfan þig og mögu­lega börnin þín en þú tekur ekki á­kvarðanir fyrir aðra. Fólk tekur sínar eigin upp­lýstu á­kvarðanir, mis­upp­lýstu kannski.“

Á­nægð með hve fáir hafa mót­mælt

Ragn­heiður Ósk Er­lends­dóttir hjá heilsu­gæslunni á höfuð­borgar­svæðinu segir að mót­mælin í dag séu þau einu sem hafi komið upp síðan bólu­setningar barna hófust í gær.

Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir er yfir bólusetningarverkefni heilsugæslunnar. vísir/Sigurjón

Hún er á­nægð með hve fá­tíð mót­mæli við raðir fólks á leið í bólu­setningar hafa verið en henni er að­eins kunnugt um tvö til­vik; mót­mælin í dag og þegar kona nokkur var hand­tekin þegar hún mót­mælti bólu­setningum þungaðra kvenna.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×