Guðrún Arnardóttir var í byrjunarliði Rosengård á meðan Cecilía Rán Rúnarsdóttir var í marki Örebro og Berglind Rós Ágústsdóttir fyrir framan hana í miðverði.
Rosengård setti tóninn snemma er Mimmi Larsson kom liðinu yfir á sjöttu mínútu. Jelena Cankovic tvöfaldaði forystuna á 25. mínútu og þá bættu þær Sanne Troelsgaard og Ria Öling við sitthvoru markinu fyrir hlé.
Öling skoraði sitt annað mark eftir stundarfjórðung í síðari hálfleik og Bea Sprung innsiglaði 6-0 sigur Rosengård á 80. mínútu.
Rosengård er með 35 stig á toppi deildarinnar, níu stigum á undan Häcken sem er með 26 stig en á leik inni.
Fyrsti leikur Hlínar síðan í maí
Fyrr í dag gerði þá Piteå 1-1 jafntefli við Linköping. Hlín Eiríksdóttir var í byrjunarliði Piteå og spilaði fyrstu 74 mínúturnar.
Leikur Hlínar var hennar fyrsti síðan í lok maí en hún hefur síðan glímt við meiðsli.
Piteå er með ellefu stig, líkt og Örebro, en þau eru í 10. og 11. sæti af tólf liðum. Hættan á falli er ekki gríðarleg þar sem aðeins eitt lið fellur úr deildinni í ár. Växjö er límt við botn deildarinnar með fjögur stig og leitar enn síns fyrsta sigurs.
Sænska úrvalsdeildin er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Sænski boltinn er hluti af Stöð 2 Sport Erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.