Keppni í 2. umferðinni skiptist í tvennt. Annars vegar keppa landsmeistarar um sæti í riðlakeppninni, í svokallaðri meistaraleið, og hins vegar lið úr sterkari deildum sem ekki urðu meistarar á síðustu leiktíð, í deildarleiðinni.
Breiðablik er í meistarahlutanum og var þar í efri styrkleikaflokki vegna árangurs síns síðustu ár. Blikakonur voru aðrar upp úr pottinum í drættinum í dag og drógust gegn króatísku meisturunum Osijek.
Osijek var næst lægst af landsmeisturunum samkvæmt styrkleikaröðun UEFA, aðeins fyrir ofan Portúgalsmeistara Benfica.
Osijek vann Svartfjallalandsmeistara Breznica Pljevlja 5-0 og svo 1-0 sigur á Anderlecht frá Belgíu í fyrstu umferðinni til að komast í aðra umferðina. Á sama tíma vann Breiðablik 7-0 sigur á KÍ Klaksvík frá Færeyjum og 8-1 sigur á Gintra frá Litáen.
Breiðablik og Osijek munu leika tvo leiki um sæti í riðlakeppninni. Sá fyrri fer fram 31. ágúst eða 1. september, og sá síðari 7. eða 8. september.
Íslendingaslagur milli Skandinavíumeistara
Það verður Norðurlandaslagur um sæti í riðlakeppninni milli tveggja Íslendingaliða. Noregsmeistarar Vålerenga, lið Ingibjargar Sigurðardóttur og Amöndu Jacobsen Andradóttur, mætir Svíþjóðarmeisturum Häcken sem Diljá Ýr Zomers leikur með.
Apollon frá Kýpur, sem Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir leikur með, mætir Úkraínumeisturum Kharkiv.
Guðrún Arnardóttir og félagar hennar í Rosengård mæta þýska stórliðinu Hoffenheim og þá keppir Lyon, lið Söru Bjarkar Gunnarsdóttur, við Levante frá Spáni.
Wolfsburg, lið Sveindísar Jane Jónsdóttur sem er þó á láni hjá Kristianstad, mætir Bordeaux frá Frakklandi.
Dráttinn í heild sinni má sjá hér að neðan.
Viðureignirnar í 2. umferð Meistaradeildarinnar
Meistaraleiðin
Sparta Prag - HB Köge
Osijek - Breiðablik
Vllaznia - Juventus
Twente - Benfica
Apollon - Kharkiv
Servette - Glasgow City
Vålerenga - Häcken
Deildarleiðin
Levante - Lyon
Arsenal - Slavia Prag
Real Madrid - Manchester City
Wolfsburg - Bordeaux
Rosengård - Hoffenheim