Bismillah Mohammadi, varnarmálaráðherra fallinnar stjórnar Afganistan, greindi frá þessu í tísti fyrr í dag. Þar segir hann að héruðin Deh Saleh, Bano og Pul-Hesar séu ekki lengur á valdi Talibana. Fréttastofa Reuters greinir frá.
Ekki er fullljóst hvaða hersveitir það eru sem náðu héruðunum á sitt vald, en svo mikið er víst að þær berjast gegn Talibönum. Fregnirnar vekja eflaust von hjá einhverjum eftir að Talibanar náðu Afganistan aftur á vald sitt á rétt rúmri viku.
Staðarmiðillin Tolo News hafði eftir lögreglustjóra á svæðinu að Bano svæðið í Baghlan héraði sé nú undir stjórn uppreisnarhersveita og að fjöldi hafi fallið í áttökum við Talibana. Talibanar hafa ekki tjáð sig um þetta.
Amrullah Saleh, fyrrverandi varaforseti Afganistan, og Ahmad Massoud, sonur Mujahideen leiðtogans Ahmad Shah Massoud, sem barðist gegn Sovétmönnum á sínum tíma, hafa þá heitið því að þeir muni berjast gegn Talibönum. Þeir muni hefja verkið í Panjshir.
Samkvæmt frétt Reuters hafa sex þúsund hermenn hafi safnast saman í Panjshir-dalnum. Hermennirnir eru margir hverjir fyrrverandi sérsveitarmenn eða meðlimir uppreisnarhópa. Þá eru þeir sagðir hafa einhverjar þyrlur og önnur hernaðarfarartæki á sínum snærum. Sveitunum hafi jafnframt tekist að gera við skriðdreka og önnur farartæki sem Sovétmenn skildu eftir. -