Frá þessu greinir björgunarsveitin á Facebook- síðu sinni í kvöld:
„Það er ekki nóg með að öðlingurinn hann Sæmundur Ásgeirsson komi með matarmiklar súpur og ilmandi vöfflur þegar flugeldasalan okkar er í hámarki heldur ánafnaði hann Björgunarsveitinni Brák peningaupphæð sem honum var greidd í sl. viku vegna Húsafellsmálsins svokallaða,“ segir í færslu björgunarsveitarinnar.
„Það voru hvorki meira né minna en 5 milljónir og renna þær beint í húsbygginguna okkar. Þetta hefur ótrúlega mikið að segja þar sem það er meira en að segja það að byggja upp nýja björgunarmiðstöð. Við þökkum okkar velgjörðarmanni innilega fyrir.“
Sæmundur, sem rekur gistiheimili á Húsafelli 1, höfðaði mál gegn Páli Guðmundssyni, nágranna sínum á Húsafelli 2, sem reist hafði þar Legsteinasafnið. Eftir málið var Páli gert að rífa safnið.
Þegar kom að því að rífa átti húsið í síðustu viki steig Borgarbyggð inn í og náði að sætta þá Sæmund og Pál. Sæmundur hefur fengið milljónirnar fimm í þeim sáttum en þær eru nú komnar í hendur björgunarsveitarinnar Brák.