Innlent

Ekkert heitt vatn í Vestur­bænum í nótt og á morgun

Atli Ísleifsson skrifar
Svæðið sem heitavatnsleysið nær til.
Svæðið sem heitavatnsleysið nær til. Veitur

Íbúar í Vesturbæ Reykjavíkur mega búa sig undir heitavatnsleysi í nótt og á morgun. Starfsfólk Veitna hefst handa í nótt við að tengja nýja hitaveitulögn fyrir Landspítala háskólasjúkrahús við stofnlögnina sem flytur heitt vatn í Vesturbæ Reykjavíkur.

Í tilkynningu frá Veitum segir að skrúfa þurfi fyrir stofnlögnina á meðan og þess vegna verði heitavatnslaust vestan við Læk og Vatnsmýri meðan nýja lögnin sé tengd, frá klukkan þrjú aðfararnótt morgundagsins og til um klukkan 16 á morgun.

„Við bendum fólki á að hafa skrúfað fyrir heitavatnskrana til að draga úr hættu á slysi eða tjóni þegar vatnið kemst á að nýju. Þá er ráðlegt að hafa glugga lokaða og útidyr ekki opnar lengur en þörf krefur til að halda betur hita í húsum.

Upplýsingar um framgang verksins verða settar á Facebook-síðu Veitna.  Einnig verður upplýst um framgang á íbúasíðum hverfanna á Facebook.

Starfsfólk Veitna biðst velvirðingar á óþægindum vegna þessa.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×