Íslenska landsliðið spilaði við Svartfjallaland og Danmörku á fimmtudag og föstudag en átti frí um helgina. Framhaldið eru síðan leikir við Svartfellinga í kvöld og Dani á morgun.
Nat-vélin tókst að ná sér í flensuskít og þurfti að fara í auka kórónuveirupróf enda íslenska landsliðið allt í FIBA bubblu í Svartfjallalandi þar sem allur riðill liðsins í forkeppni HM fer fram.
Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ, er úti með íslenska landsliðinu og hann ræddi við Ragnar um þessa veikindahelgi hans. Viðtalið var inn á miðlum KKÍ en það má einnig sjá hérna fyrir neðan.
„Staðan á mér er miklu betri en í gær. Ég var rúmliggjandi allan gærdaginn [Laugardagur] og fór í Covid próf til öryggis. Vegna þess að við erum í bubblu en mikilvægt að vera ekki að smita menn í kringum sig,“ sagði Ragnar.
„Þetta reyndist bara vera einhver flensuskítur en ég tók æfingu í morgun og er allt annar maður,“ sagði Ragnar.
„Þér tókst að ná þér í flensuskít og einangraðir þig svolítið frá hópnum í fyrrinótt, allan gærdag og þangað til í morgun. Hvernig var að vera einn með sjálfum sé þennan tíma,“ spurði Hannes í viðtalinu.
„Það var skelfilegt. Það er nógu mikil fangelsisstemmning yfir því að að vera í svona bubblu. Hvað þá þegar maður er læstur inn í herbergi að gera ekki neitt. Það var mjög gott að mér leið betur í morgun og þorði að fara út úr herberginu,“ sagði Ragnar.
Ísland mætir Svartfjallalandi klukkan 18.00 í kvöld. Sigur í leiknum færi langt með að tryggja íslenska liðinu sæti í undankeppninni en lokaleikurinn er síðan á móti Dönum á morgun. Danir hafa tapað báðum sínum leikjum. Ísland er með einn sigur og eitt tap og lið Svartfjallalands er með fullt hús.