Innlent

Tveir full­bólu­settir bættust á gjör­gæslu

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Landspítalinn í Fossvogi.
Landspítalinn í Fossvogi. Vísir/Vilhelm

Þeim sem lagst hafa inn á gjörgæslu á Landspítalanum í þessari bylgju kórónuveirufaraldursins hefur fjölgað úr sex í átta í dag. Þetta má ráða úr tilkynningu sem spítalinn sendi frá sér í dag.

Þar kemur fram að 26 liggi nú á Landspítala með Covid-19. Þar af eru fjórir á gjörgæslu. Tveir þeirra eru í öndunarvél. Af þeim átta sem þurft hafa að leggjast inn á gjörgæslu hafa fjórir verið fullbólusettir. Í sambærilegri tilkynningu frá spítalanum í gær kom fram að sex hefðu þá þurft á gjörgæslu, þar af tveir fullbólusettir.

Því er ljóst að þeir gjörgæslusjúklingar sem bættust við í dag eru fullbólusettir. Alls hafa 58 sjúklingar lagst inn á Landspítalann með Covid-19 en um 40 prósent þess hóps er óbólusettur. Af 16 ára og eldri hér á landi hafa minnst 86,3 prósent verið fullbólusett og 6,6 prósent hálfbólusett, samkvæmt tölum af Covid.is, sem síðast voru uppfærðar fyrir fjórum dögum.

Klukkan þrjú í dag voru 1.435 í eftirliti hjá Covid-göngudeild spítalans, þar af 309 börn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×