Handbolti

Frakkar hefndu fyrir tapið 2016 og eru Ólympíumeistarar í þriðja sinn

Valur Páll Eiríksson skrifar
Frakkar eru Ólympíumeistarar í þriðja sinn eftir seiglusigur á Dönum.
Frakkar eru Ólympíumeistarar í þriðja sinn eftir seiglusigur á Dönum. Maja Hitij/Getty Images

Frakkland vann 25-23 sigur á Danmörku í úrslitum í handbolta karla á Ólympíuleikunum í Tókýó. Frakkar hefna þar með fyrir tap fyrir Dönum í úrslitum á leikunum í Ríó fyrir fimm árum síðan.

Leikur liðanna var jafn í upphafi og staðan var 4-4 snemma leiks. Þá náðu Frakkar yfirhöndinni með tveimur mörkum í röð, 6-4, og komust svo þremur mörkum yfir, 9-6. Frakkar komust mest fjórum mörkum yfir, 12-8. Sá munur hélst til loka fyrri hálfleiks, en á lokasekúndu hálfleiksins skoraði Mahé til að veita Frökkum 14-10 forystu í hléi.

Frakkar komust svo sex mörkum yfir snemma í síðari hálfleiknum, fyrst 16-10, og svo 18-12. Fjölda tapaðra bolta kostaði Dani þar.

Danir bitu hins vegar frá sér og minnkuðu muninn jafnt og þétt. Niklas Landin komst í gang í markinu og Mikkel Hansen fór mikinn í sókninni. Þrjú mörk Hansens í röð minnkuðu muninn í 22-19, en Hansen hafði þá skorað níu af 19 mörkum Dana. Frakkar fengu þá tvær klaufalegar tveggja mínútna brottvísanir í röð og voru tveimur færri í tæpa mínútu. Danir gengu á lagið og minnkuðu muninn enn frekar í 22-21 þegar tíu mínútur lifðu leiks.

Frakkar tóku þá leikhlé og við tóku fimm mínútur án dansks marks. Frakkar komust í 23-21 og þá klúðraði Hansen víti þar sem hann hafði tækifæri til að minnka muninn aftur í eitt mark. Matthias Gydsel tókst þó að minna í 23-22 í næstu sókn og eins marks munur þegar fjórar mínútur voru eftir.

Frakkar endurnýjuðu tveggja marka forskot sitt skömmu síðar og Dönum tókst illa að brjóta vörn þeirra á bak aftur. Nicolai Jacobsen tók lekhlé í stöðunni 24-22 þegar tvær mínútur voru eftir og Danir skoruðu í kjölfarið. Þeir kláruðu vörnina gegn Frökkum og höfðu tækifæri til að jafna í næstu sókn þar sem þeir spiluðu sjö gegn sex.

Þar töpuðu Danir hins vegar boltanum. Ludovic Fabregas stal honum og kastaði boltanum í autt markið þegar nokkrar sekúndur voru eftir. 25-23 sigur Frakka var því staðreynd.

Frakkar eru því Ólympíumeistarar í handbolta karla í þriðja sinn. Áður unnu þeir í Peking 2008, eftir sigur á Íslandi í úrslitum, og í Lundúnum 2012. Þeir hlutu silfur á síðustu leikum 2016, eftir tap fyrir Dönum, sem þá voru undir stjórn Guðmundar Guðmundssonar, landsliðsþjálfara Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×