Sport

Hlynur bætir enn eitt Íslandsmetið

Valur Páll Eiríksson skrifar
Hlynur Andrésson á fjölmörg Íslandsmet.
Hlynur Andrésson á fjölmörg Íslandsmet. Mynd/ÍSÍ

Hlauparinn Hlynur Andrésson sló í gærkvöld eigið Íslandsmet í 3000 metra hlaupi í Jessheim í Noregi. Hlynur kom í mark á 7:54,72 mínútum.

Hlynur bætti fyrst metið í vegalengdinni í júlí 2020. Fyrra met hafði þá staðið í 37 ár, frá því að Jón Diðriksson setti það árið 1983.

Þá kom Hlynur í mark á 8:04,54 mínútum en hann bætti þann tíma í hlaupi gærdagsins um tæpar tíu sekúndur.

Hlynur á einnig Íslandsmet í maraþoni, hálfmaraþoni, 5000 metra hlaupi utanhúss, 10.000 metra hlaupi, 10 kílómetra götuhlaupi og 3000 metra hindrunarhlaupi. Þá á hann einnig Íslandsmet innanhúss í 1500 metra hlaupi, 3000 metra hlaupi og 5000 metra hlaupi.

Hlynur setti Íslandsmet í 5000 metra hlaupi fyrir rétt rúmum mánuði síðan, þegar hann sló þriggja mánaða gamalt met Baldvins Þórs Magnússonar. Baldvin hafði þá slegið fyrra met Hlyns.

Í mars á þessu ári setti Hlynur Íslandsmet í maraþonhlaupi í sinni fyrstu tilraun. Hann hljóp sitt fyrsta maraþon á ferlinum á 2:13:37 sem var rúmri þremur og hálfri mínútu betri tími en fyrra Íslandsmet Kára Steins Karlssonar frá 2011.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×