„Nú erum við komin í alveg nýtt landslag þar sem við erum einmitt að feta okkur inn í það að við ætlum miklu frekar að horfa til þess hversu margir eru veikir og hversu margir eru alvarlega veikir frekar en til fjölda smita. Þetta er það sem við erum að sjá núna frá degi til dags og þessi fjöldi sem er inniliggjandi á spítalanum er áhyggjuefni,“ sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun.
„Spítalinn er að bregðast sjálfur við með því að fjölga þessum rýmum og við erum að skoða með spítalanum hvort það sé möguleiki að koma á laggirnar varanlegri Covid-einingu,“ sagði Svandís.
Erfiðasta tímabil ársins
Staðan á Covid göngudeild Landspítalans þyngist dag frá degi og er nú unnið að opnun nýrrar Covid-deildar á Landspítalanum. Þurft hefur að kalla starfsfólk úr sumarleyfum vegna álags. Runólfur Pálsson, yfirmaður Covid-göngudeildarinnar, sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær að aukist álag áfram verði staðan illráðanleg.
„Við erum á erfiðasta tíma ársins hvað snertir mönnun vegna sumarleyfa þannig það er bara mjög erfitt. Við verðum þá að reyna að kalla fólk inn úr leyfum og við erum þegar að því en það þarf að gera það í auknum mæli. Það er ekki á vísan að róa með það,“ sagði Runólfur í gær.
Telur að auka þurfi fjármagn til spítalans
Svandís segist vel skilja að staðan sé erfið á spítalanum.
„Það er jafn erfitt fyrir spítalann eins og samfélagið allt að vera að herða og slaka á víxl þannig að við þurfum að sjá þetta fyrir okkur kannski inn í lengri framtíð sem hluta af okkar daglega lífi.“
Á kjörtímabilinu hafi Landspítalanum verið gefið aukið fjármagn og verið sé að vinna í að bæta varanlega þann mönnunarvanda sem ríki í heilbrigðiskerfinu.
„Við höfum verið á þessu kjörtímabili að auka umtalsvert fjármagn til spítalans og raunar um 14 prósent á föstu verðlagi þannig að það er umtalsverð viðbót. Þannig að spítalinn stendur betur en hann hefði staðið án þess,“ segir Svandís.
Hún telji þó að bæta þurfi fjármögnunina enn betur.
„Mín afstaða er sú að það þurfi að auka fjármögnun og bæta fjármögnun til spítalans áfram næstu ár og það þarf að stíga áfram þau skref. En svo eru aðrir þættir sem lúta ekki beint að fjármagni eins og til dæmis mönnun.“
Værum við ekki bólusett væri líklega 10 manna samkomutakmark
Styrkja þurfi hana með því að fjölga þeim sem fari í heilbrigðistengt nám.
„Það erum við að gera með sérstöku landsráði um mönnun og menntun. Þannig að við erum að taka á þessi frá ýmsum hliðum en þetta er stórt verkefni inn í framtíðina,“ segir Svandís.
Hún segir að staðan sé mun betri í dag en hún var áður en meginþorri þjóðarinnar var bólusettur. Hins vegar sé ljóst að hjarðónæmi gegn delta-afbrigðinu hafi ekki verið náð og skoða þurfi næstu skref vandlega.
„Bólusetningarnar eru að hafa gríðarlega mikil áhrif vegna þess að ef við værum ekki bólusett værum við komin í örugglega 10 manna samkomubann,“ segir Svandís.
„Samt erum við ekki að ná því markmiði með delta-afbrigðinu að ná hjarðónæmi í samfélaginu.“