Fótbolti

Rúnar Már skoraði og lagði upp er Cluj fór áfram

Valur Páll Eiríksson skrifar
Rúnar Már var að skora sitt annað mark í forkeppni Meistaradeildarinnar í ár.
Rúnar Már var að skora sitt annað mark í forkeppni Meistaradeildarinnar í ár. Flaviu Buboi/NurPhoto via Getty Images

Íslenski landsliðsmaðurinn Rúnar Már Sigurjónsson skoraði eitt og lagði upp annað er lið hans Cluj frá Rúmeníu fór áfram í forkeppni Meistaradeildar Evrópu í kjölfar sigurs á Lincoln Red Imps frá Gíbraltar í kvöld.

Cluj hafði unnið fyrri leik liðanna í Gíbraltar 2-1 og var því með yfirhöndina fyrir síðari leikinn í Rúmeníu í kvöld.

Mike Cestor kom Cluj yfir á 18. mínútu leiksins eftir stoðsendingu frá Rúnari Má. 1-0 stóð í hléi en Rúnar Már skoraði sjálfur á 58. mínútu til að tryggja 2-0 sigur Cluj.

Cluj vann því samanlagðan 4-1 sigur og er komið áfram í næstu umferð forkeppninnar. Rúnar var að skora sitt annað mark í forkeppninni en hann skoraði einnig gegn Borac Banja Luka frá Bosníu í umferðinni á undan.

Cluj mætir annað hvort Slovan Bratislava frá Slóvakíu eða Young Boys frá Sviss í næstu umferð. Þau skildu jöfn 0-0 í fyrri leik sínum í Slóvakíu en síðari leikurinn fer fram í Sviss í kvöld.

Ögmundur og Mikael ekki á skýrslu

Ögmundur Kristinsson var ekki í leikmannahópi Olympiakos sem komst áfram eftir 1-0 útisigur á Neftchi frá Aserbaísjan. Olympiakos vann samanlagt 3-0.

Hinn 18 ára gamli Konstantinos Tzolakis var í marki gríska liðsins og tékkneski landsliðsmarkvörðurinn Tomas Vaclik, sem kom nýverið frá Sevilla, var varamarkvörður. Vera má að Ögmundur sé á förum frá gríska liðinu fyrst hann kemst ekki í leikmannahóp þess.

Mikael Anderson var þá ekki í hópi Midtjylland sem mætti Celtic. Sá leikur stendur enn yfir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×