Lífið

Af­vopnaður á ríkis­stjórnar­fundinum á Egils­stöðum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Siggi á Vaðbrekku í camo fötum frá toppi til táar við vörðu nokkra.
Siggi á Vaðbrekku í camo fötum frá toppi til táar við vörðu nokkra. @veidimeistarinn

Sigurði Aðalsteinssyni, fréttaritara Morgunblaðsins á Austurlandi og einum þekktasta hreindýraleiðsögumanni landsins, brá heldur betur í brún í gær þegar hann var stöðvaður á leið sinni inn á ríkisstjórnarfund á Hótel Valaskjálf á Egilsstöðum. Ástæðan var sú að Sigurður var vopnaður.

Sigurður greinir sjálfur frá þessu á Instagram-síðu sinni þar sem hann segist hafa fengið beiðni frá Morgunblaðinu um að mynda upphaf ríkisstjórnarfundarins. Til hans var boðað með frekar skömmum fyrirvara en tilefnið var minnisblað sóttvarnalæknis og tillögur hans að aðgerðum innanlands.

„Ég brást vel við því og mætti á staðinn, myndaði ráðherrana úti í sólinni fyrir fundinn og svo inni við ríkisstjórnarborðið,“ segir Sigurður. Allt gekk vel fyrir sig þar til öryggisvörður virðist hafa orðið var við aukahlut við belti Sigurðar.

„Þá bar nýrra við! Ég var afvopnaður í fyrsta skipti. Öryggisvörður frá lögreglunni leyfði mér fráleitt að fara með hnífinn minn við beltið inn á ríkisstjórnarfundinn. Ég varð að afhenda honum hnífinn sem hann geymdi og afhenti mér með skilum þegar ég kom út aftur, að lokinni myndatökunni!“

Sigurður, betur þekktur sem Siggi á Vaðbrekku í Hrafnkelsdal inn af Jökuldal, er þekktur fyrir veiðimennsku og var venju samkvæmt með veiðihníf á sér. Kappinn er þekktur fyrir að klæðast sjaldan öðru en „camo“ fötum, jafnvel nærfatnaði ef út í það er farið, en fötin eru afar vinsæl við veiðar.

Siggi hefur fengist við það áratugum saman, samhliða búskap og veiðum, að vera fréttaritari á Austfjörðum.

Ekki náðist í Sigurð við vinnslu fréttarinnar og má telja líklegt að hann sé utan þjónustusvæðis með hníf við beltið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.