Og svo það sé nú sagt, hafa rannsóknir reyndar sýnt að kjaftagangur og kjaftasögur eru samkvæmt ekkert alltaf alslæmar.
Þvert á móti geta þær sumar hverjar gert samfélaginu gott því kjaftasögur geta oft verið nokkurs konar aðhald á það hvað er samþykkt og hvað ekki.
Í umfjöllun TIMES má sjá ýmsan fróðleik úr nokkrum rannsóknum sem gerðar hafa verið síðustu áratugina.
Í einni rannsókn sýndu niðurstöður til dæmis að konur eru líklegri en karlar til að gleyma sér um of í kjaftasögum.
Bæði kynin eru þó dugleg við þessa iðju.
Þetta kann að hljóma mjög illa en svo er í raun ekki. Því rannsóknir hafa sýnt að oft er kjaftagangur og kjaftasögur ekkert spjall undir neikvæðum formerkjum.
Heldur er þetta hlutlaust spjall, stundum meira að segja jákvætt.
Þegar að við erum að meta kjaftagang, kjaftasögur eða umtal um annað fólk, þurfum við því að meta með hvaða hætti er verið að tala eða segja frá.
Því það er fyrst og fremst baktal sem fer illa í okkur.
Og hefur neikvæð áhrif á okkur.
Til dæmis hafa rannsóknir sýnt að mikið baktal á vinnustöðum dregur úr afköstum okkar. Við eigum líka erfiðara með að treysta samstarfsfélögum okkar á vinnustöðum þar sem við vitum að oft er verið að tala um fólk þegar það er ekki á staðnum.

En eins og í svo mörgu, snýst áskorunin okkar ekkert um það hvernig annað fólk hegðar sér.
Okkar er hins vegar að ákveða hvernig við viljum vera. Hér eru því nokkur ráð til að hjálpa okkur að taka ekki þátt í baktali á vinnustöðum eða í vinahópum.
1. Settu þér markmið: Og stattu við það!
Fyrsta skrefið er að lofa okkur sjálfum því að við ætlum ekki að taka þátt í baktali.
Sem mörgum finnst kannski hljóma mjög auðveldlega.
En hvað gerist þegar þú veist af því að það er einhver spennandi saga í gangi í vinnunni? Hvað ætlar þú að gera þá?
Því það kitlar að fá að vita..... er það ekki?
En mundu: Þú gafst þér loforð og markmiðið þitt er að taka ekki þátt.
Það jákvæða við að vita engar sögur er líka það að þá getur enginn spurt okkur nánar út í eitt eða neitt. Við bara lyftum brúnum, hváum og segjumst bara ekkert vita um málið né vilja það!
2. Æfðu þig í að skipta um umræðuefni
En þar sem baktal er svo mörgu fólki tamt getur það verið hægara sagt en gert að fjarlægja sig alfarið frá slíku tali.
Ímyndum okkur til dæmis að við séum í hádegismat með vinnufélögum.
Þegar að ....BÚMM: Einni góðri sögu um yfirmanninn okkar er varpað fram!
Hópurinn við borðið tekst á loft og „allir” vilja vita meira. Eða ræða málin nánar.
Það sem við þurfum þá að gera er að skipta um umræðuefni. Til þess að geta það, þurfum við að æfa okkur svolítið.
Því æfingin skapar meistarann í þessu eins og öðru.
Oft getur það hjálpað að koma með beina spurningu inn í hópinn eða til samstarfsfélagans. Til dæmis: Hvað gerðir þú um helgina? Eða Sástu síðasta Gulla byggir þáttinn?
Sumir hafa líka mælt með því að grípa þá í símann sinn og þykjast vera upptekin. Eða skreppa á salernið.
3. Að forðast ákveðnar aðstæður eða fólk
Hvar í vinnunni þinni finnst þér algengast að fólk detti í kjaftagang eða baktal? Eða hverjir eru það helst, sem leiða þá umræðu?
Því oft er þetta alltaf sama fólkið sem leiðir af stað baktal.
Til að forðast baktal þurfum við að kortleggja svolítið hvar kjaftagangur og baktal fer oft fram.
Er til dæmis oft verið að tala um annað fólk þegar að fólk er að bíða eftir því að fundur hefjist? Ef svo er, reyndu þá að mæta bara akkúrat á réttum tíma.
Og ef það er alltaf sama fólkið sem er að baktala, er gott að reyna að draga úr samskiptum eða samvistum við þann aðila eins og kostur er.
4. Ekki gera undantekningar og bera á milli
Að heyra aldrei baktal getur verið hægara sagt en gert.
Við gætum vandað okkur í hvívetna og staðið okkur vel í öllu ofangreindu en samt: Við heyrðum þó það sem sagt var!
Til viðbótar við að taka aldrei þátt í slíku tali, er síðan mikilvægt að gera aldrei undantekningu á því að bera slíkt tal á milli.
Enda hefur baktal oft neikvæð áhrif á það hvernig fólk fer að upplifa viðkomandi einstakling.
Munum því það loforð sem við vorum að gefa okkur:
Við ætlum ekki að baktala.