Sveindís Jane kom til Kristianstad fyrir tímabilið eftir að hafa leikið frábærlega sem lánsmaður hjá Breiðabliki frá uppeldisfélagi sínu Keflavík. Sveindís skoraði 14 mörk í 15 leikjum fyrir Blikakonur er þær urðu Íslandsmeistarar í fyrra.
Sveindís skoraði í fyrstu tveimur deildarleikjum sínum fyrir Kristianstad en var síðan frá í mánuð vegna meiðsla. Hún hefur síðan bætt við tveimur deildarmörkum til viðbótar og er alls með fjögur mörk í níu leikjum fyrir liðið á tímabilinu.
„Ég er rosa sátt við Sveindísi og þetta er auðvitað pínulítil breyting fyrir hana, þetta er bara öðruvísi deild. Ég er búin að horfa á leiki þegar ég hef verið hér heima og maður sér alveg klárlega muninn. Hérna er mikill kraftur í leikjunum, fram og til baka, færi á báða bóga og mörg mörk,“ segir Elísabet sem segir sænsku deildina vera töluvert taktískari en þá íslensku.
„Þetta er ekki alveg þannig í Svíþjóð, eins og þið vitið sem hafið fylgst með þeirri deild, hún er taktískari og mér hefur fundist það vera áskorun fyrir Sveindísi að koma inn í þennan taktíska leik,“ segir Elísabet.
Sveindís Jane var keypt til þýska stórliðsins Wolfsburg eftir síðasta tímabil en er aðeins á láni hjá Kristianstad. Elísabet segir að hún verði ekki áfram hjá Kristianstad eftir þetta tímabil, heldur verði klár í slaginn með stórveldinu.
„Hún er bara að verða betri og betri og ég tel þetta vera frábært milliskref fyrir hana áður en hún fer í stórliðið Wolfsburg. Hún fer í lok tímabils og verður 100% klár í að fara í alvöruna þar.“ segir Elísabet.
Sif á réttri braut
Sveindís er ekki eini Íslendingurinn á mála hjá Kristianstad. Varnarjaxlinn Sif Atladóttir er goðsögn hjá félaginu, enda leikið þar sleitulaust frá árinu 2011 undir stjórn Elísabetar.
Sif, sem er 36 ára gömul, var frá allt tímabilið í fyrra vegna barneigna og lék sinn fyrsta keppnisleik í eitt og hálft ár þegar hún kom inn í lið Kristianstad í upphafi móts.
„Sif er að komast í betra og betra form, mér fannst hún spila frábæran leik, núna þann síðasta fyrir pásuna, þá var hún komin í vörnina aftur. Við söknuðum hennar þar þegar við vorum að spila við Hacken og við fengum á okkur of mikið af mörkum. Þá sá ég að það væri nú gott að henda henni til baka í vörnina. Hún er bara að fá til baka hraðann og svona gamla formið. Ég er 100% að hún muni nýta pásuna vel og það verður gaman að sjá hana í seinni hlutanum.“ segir Elísabet.
Viðtalið við Elísabetu má sjá að neðan.

Sænska úrvalsdeildin er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Sænski boltinn er hluti af Stöð 2 Sport Erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.