„Það er allt tómt. Ekki til kjöt, brauð, kartöflur eða neitt. Raðirnar í búðinni eru sirka fimmtíu manns og allir að leita sér að einhverju að borða á yfirfullum tjaldstæðum,“ segir gestur nokkur á svæðinu, sem tók meðfylgjandi myndir, í samtali við Vísi.

Starfsmaður tjaldsvæðisins segist einnig hafa orðið var við þetta vandamál.
„Já, við höfum heyrt af því frá nokkrum gestum að þeir hafi átt erfitt með að finna sér mat,“ segir hann.

Á svæðinu eru bæði nýja búðin Gvendarkjör og sjoppan Skaftárskáli. Starfsmaður tjaldsvæðisins segir sama vandamál hafa verið uppi hjá báðum verslunum og að mjög langar raðir hafi myndast við þær báðar í dag.
Hann segir að enn séu nokkur laus pláss á tjaldsvæðinu, sem sé þó í þann mund að fyllast. Liðin vika hafi verið sú annasamasta í ár.
Ekki náðist í eigendur Gvendarkjara í kvöld en starfsmaður tjaldsvæðisins segir að ný vörusending hljóti að vera á leiðinni þangað.
